Svo kann að fara að handknattleiksmaðurinn Sigurður Ari Stefánsson yfirgefi herbúðir norska liðsins Bodö HK við lok þessarar leiktíðar þótt hann eigi enn eftir eitt ár samningi sínum við félagið. Sigurður Ari gekk til liðs við 1. deildarliðið Bodö HK á síðasta sumri eftir að hafa verið um nokkurra ára skeið hjá úrvalsdeildarliðinu Elverum við góðan orðstír. Bodö HK er efst í 1. deild og á sæti í úrvalsdeild á næsta keppnistímabili víst. Sigurður Ari hefur verið einn besti leikmaður liðsins í vetur og á stóran þátt í velgengni þess.