Á nýliðinni haustönn voru tæplega 80 fleiri nemendur í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum en önnina á undan. Alls um 280 nemendur á 11 mismunandi brautum og í 82 áföngum. Tæplega 59% umsækjenda á haustönn voru í iðn- og verknám og 36% nemenda sem komu beint úr grunnskóla sóttu um í iðn- og verknámi eða 21 nemandi af 59. Markmið um að efla iðn- og vernám fyrir árið 2030 var slegið og gott betur en það. „Mikið ánægjuefni fyrir skólann og ekki síður samfélagið okkar. Gangar og kennslustofur fylltust af áhugasömum nemendum og önnin fór vel af stað,“ sagði Thelma Björk Gísladóttir, aðstoðarskólastjóri á skólaslitum haustannar.
„Ef við skoðum skólann í heild þá voru 52% nemenda skráðir í iðn- og starfsnám. Í fyrsta sinn í sögu skólans fórum við af stað með faggreinar í pípulögnum og erum í dag að útskrifa 4 pípara. Það er okkar von að fleiri bætist við í náinni framtíð. Við fórum einnig af stað með iðnmeistaranám í fyrsta sinn og viðtökurnar voru og eru frábærar. Þrjátíu og sex nemendur eru skráðir í smíðanám, 21 í rafmagninu, 30 í vélstjórn og svona get ég haldið áfram.
Brugðist við eftirspurn
Hafið þið verið að bíða lengi eftir iðnaðarfólki? Við erum allavega að vinna hörðum höndum að því að koma þeim til ykkar. Og ekki má gleyma að tæplega helming allra nemenda sem stundar bóknám við skólann sem koma einnig til með að þjónusta samfélagið okkar á einn eða annan hátt áður en langt um líður,“ sagði Thelma Björk og benti á að námsframboð skólans hafi sjaldan verið fjölbreyttara og meira spennandi.
„Langflestir finna eitthvað við sitt hæfi og erum við stolt og ánægð að geta veitt öllum þessum einstaklingum tækifæri til að sækja námið í sinni heimabyggð. Við höfum lagt okkur fram við að hlustum á eftirspurnina og reynt eftir fremsta megni að bregðast við henni. Draumurinn er að halda áfram með þetta mikla námsúrval og gera enn betur, útskrifa rafvirkja, fara af stað með skipstjórnarnám, C-stigið í vélstjórn, leikskólaliða og stuðningsfulltrúa. Ef þið eruð með fleiri hugmyndir þá pikkið þið í okkur og við skoðum hvað hægt er að gera.“
Gervigreindin
En það er ekki bara námsáhuginn og námsvalið sem er að ganga í gegnum breytingar. „Með tilkomu gervigreindar kemur bylting í vinnulagi og árið 2025 markar viss tímamót. Við höfum í nokkuð langan tíma núna verið að undirbúa starfsfólk og nemendur og setja okkur í stellingar fyrir þessar hröðu breytingar. Við höfum unnið markvisst að því að efla hæfni nemenda til að leysa flókin verkefni og beita gagnrýnni og skapandi hugsun.
Námið verður sífellt einstaklingsmiðaðra, með notkun stafrænna lausna og sveigjanlegra kennsluaðferða til að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda. Námið á nefnilega að endurspeglar kröfur samtímans og leggjumst við öll á eitt að undirbúa nemenda fyrir fljótandi og tæknivæddan heim framtíðarinnar. Það er ljóst að verkefnum fækkar ekki og í samvinnu með okkar frábæra starfsfólki tæklum við þau eitt af öðru.“
Góðir gestir
Thelma Björk sagði félagslíf gott og aðsókn góð. Sjórn nemendafélagsins hafi skipulagt og staðið fyrir fjölmörgum skemmtunum. Hópur tók þátt í Erasmus verkefni sem felur í sér samstarf við kennara og nemendur frá Sevilla á Spáni og Pisa á Ítalíu. Þema verkefnisins er, Vatn í tengslum við loftlagsbreytingar.
Í september tók skólinn á móti nemendum frá Spáni og Ítalíu, ásamt kennurum. „Dagskráin var glæsileg og fjölbreytt, með áherslu á að kynna gestunum fyrir náttúru, menningu og sjálfbærri orku á Íslandi, þar sem Vestmannaeyjar voru að sjálfsögðu í brennideplinum. Við getum verið stolt af fulltrúum okkar í FÍV sem svo sannarlega sáu til þess að gera heimsóknina ógleymanlega.
Fjórir nemendur ásamt tveimur kennurum heimsóttu síðan spænska hópinn í Sevilla í nóvember. Okkar nemendur þykja afar opnir og skemmtilegir og vekja athygli fyrir góða framkomu, frumkvæði, virðingu, vináttu og áhuga á viðfangsefninu,“ sagði Thelma Björk og nefndi sérstaklega. Róbert Elí sem með einstakri leiðtogahæfni sinni hefur tekið þátt í fjölmörgum verkefnum fyrir hönd skólans og skilað frábæru starfi. „Takk Róbert Elí fyrir þitt framlag í gegnum árin, þú ert svo sannarlega góð fyrirmynd fyrir þau sem nú taka við.“
Ná því besta fram
Hún nefndi þátttöku skólans í Gettu betur og samstarfið við ÍBV íþróttafélag og Golfklúbb Vestmannaeyja um Íþróttakademíu þar sem 41 nemandi stundaði fótbolta, handbolta eða golf. „Með þessu samstarfi fáum við aukin tækifæri til að flétta saman námi og íþróttum. Náum að draga fram það besta í unga fólkinu okkar, höldum þeim lengur frá freistingum og fáum auka tíma til að fræða þau um mikilvægi andlegrar og líkamlegrar heilsu, náms og göfuglyndi.“
Thelma Björk sagði erfitt og krefjandi nám að baki en nemendur hafi líka lært seiglu, samstöðu, umburðarlyndi og tímastjórnun. „Öll hafið þið þurft að vinna vel og mikið fyrir því sem þau eru að uppskera nú. Og nú er komið að leiðarlokum. Þið hafið staðist kröfurnar og við tekur nýtt tímabil í ykkar lífi. Mig langar að enda þetta á að þakka ykkur útskriftarnemendum fyrir allar góðu samverustundirnar og samstarfið á síðustu árum. Það hefur verið mjög ánægjulegt að fá að vinna með ykkur og fylgjast með ykkur styrkjast og dafna, bæði sem nemendur og sem einstaklingar,“ sagði Thelma Björk og þakkaði einnig starfsfólki vel unnin störf á önninni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst