Skötumessan í Garði var haldin að kvöldi 19. júlí. Um 500 gestir sóttu viðburðinn og ilmur af kæstri skötu, saltfiski og plokkfiski með tilheyrandi meðlæti fyllti íþróttahús Gerðaskóla. Í hópi gesta mátti sjá fjölda brottfluttra Vestmannaeyinga. Eyjamaðurinn Ásmundur Friðriksson alþingismaður var veislustjóri en hann er helsti frumkvöðull hinnar árlegu Skötumessu á sumri.
Boðið var upp á fjölbreytt tónlistaratriði. Þar má nefna Davíð og Óskar, Pál Rúnar Pálsson, Jón Ragnar Ríkharðsson, Simma og Unni ásamt hljómsveit og í lokin söng Gospelkór Fíladelfíu undir stjórn Rafns Hlíðkvist. Ræðumaður kvöldsins var Guðni Einarsson.
Skötumessan úthlutaði styrkjum upp á samtals 7.720.000 krónur. Þar af fékk Samhjálp fimm milljóna króna styrk í tilefni af 50 ára afmæli samtakanna. Auk þess fengu m.a. Björgin, Nes íþróttafélag fatlaðra, Miðstöð símenntunar og einstaklingar styrki. Börnum í Vinnuskólanum í Suðurnesjabæ sem hjálpuðu við undirbúning Skötumessunnar var boðið í pizzuveislu í þakklætisskyni. Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja lögðu Skötumessunni lið.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst