Síðastliðinn föstudag hóf Laxey flutning á fyrstu seiðunum frá seiðastöðinni yfir í áframeldið í Viðlagafjöru. Fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins að flutningurinn hafi heppnast afar vel.
„Fyrir einu ári síðan fékk Laxey sinn fyrsta skammt af hrognum, sem síðan hafa vaxið í gegnum ferlið á seiðastöðinni okkar. Nú eru þau tilbúin að halda áfram vexti sínum í áframeldinu í Viðlagafjöru. Fyrst um sinn verða þau í stórseiðahúsinu, en að lokum verða þau flutt í áframeldiskerin þegar rétti tíminn er kominn.
Til að tryggja farsælan flutning þurfti allt að ganga upp – framkvæmdir þurftu að vera á áætlun, allur tæknibúnaður uppsettur, gangsettur og prófaður. Mikið hrós og tækni- og framkvæmdarteymi félagsins til að tryggja að stórseiðahúsið sé klárt á tíma. Mikil vinna hefur því farið fram undanfarnar vikur til að undirbúa þetta skref. Stemningin hefur verið frábær, og allir einbeittir og staðráðnir í að láta flutninginn ganga upp.
Flutningurinn gekk hnökralaust fyrir sig og lífmassinn er að aðlagast vel nýju umhverfi sínu. Þessi árangur er stórt skref fram á við og ber vitni um mikla vinnu og elju starfsmanna félagsins.” segir í fréttinni.
Halldór B. Halldórsson og Óskar Pétur Friðriksson fylgdust með flutningnum í gegnum linsurnar. Auk þess eru nokkrar myndir hér að neðan frá Laxey.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst