Gísli Valur Gíslason, skipstjóri og stýrimaður hefur víðtæka reynslu af sjómennsku. Hann kláraði Stýrimannaskólann árið 2010 og hefur síðan siglt um heimsins höf. Hann byrjaði sjómannsferilinn með afa sínum á Björgu VE sem krakki og fór svo fyrsta túrinn á Vestmannaey VE. Var á flutningaskipum Eimskips, skipstjóri á Herjólfi og er nú hafnsögumaður hjá Vestmannaeyjahöfn auk þess að vera hjá Viking Cruises. Þar hóf hann störf í byrjun árs. Fjölmargir Íslendingar hafa siglt með skemmtiferðaskipum en færri hafa upplifað það að vera í áhöfn slíkra skip. Hvernig skildi starfið vera?
„Ég starfa í dag hjá Viking Cruises sem er norskt félag. Það var stofnað 1997 og byrjaði þá í með svokölluð River Cruises skip og eiga í dag 85 svoleiðis skip um allan heim. Árið 2013 fengu þeir svo fyrsta skemmtiferðaskipið og í dag eru þau 10 talsins og árið 2020 fengu þeir svo tvö Expedition skip,” segir Gísli Valur.
Enginn dagur eins
Gísli Valur segir framtíð fyrirtækisins bjarta og á það von á 10 nýjum skemmtiferðaskipum sem bætast inn í flotann á næstu 6 árum. Sjálfur starfar Gísli Valur á skipinu Viking Venus núna. Hann segir að þó geti menn færst á milli skipa.
Aðspurður um hve margir séu í áhöfn og hvað skipið marga farþega segir hann að Viking skemmtiferðaskipin séu öll systurskip og taki 930 gesti og 465 séu í áhöfn. Vinnutilhögun Gísla Vals er þannig að hann er í 10 vikur um borð og 10 vikur heima.
Er Gísli er inntur eftir svörum um hvernig sjómannslíf sem þetta eigi við hann segir hann að þetta eigi ótrúlega vel við hann. „Eins og gefur að skilja er þetta bara eins og fljótandi bæjarfélag með um 1400 manneskjum þannig að enginn dagur er eins og verkefnin af öllum stærðum og gerðum.”
Eins og áður segir var Gísli Valur áður í áhöfn Herjólfs. En hvernig er þetta frábrugðið annarri sjómennsku, s.s. um borð í Herjólfi?
50 þjóðerna áhöfn
„Þetta er náttúrulega alveg ótrúlega frábrugðið öllu öðru sem ég hef prufað. Þar breytir kannski mestu að vera með svona ótrúlega stóra áhöfn, af um 50 þjóðernum og vera í alþjóðlegu siglingaumhverfi. Og svo auðvitað hvað skipið er stórt. Ég hef ekki áður vanist því að fara í klippingu um borð, velja á milli staða til að borða og svoleiðis þegar ég hef verið á sjó áður.”
Fæddist lítill drengur
Að sögn Gísla Vals er skipið sem hann er á í mjög breytilegum siglingum. „Síðastliðinn vetur vorum við í norðurljósa siglingum og fórum þá frá London yfir til Amsterdam þaðan til norður Noregs, Alta, Tromso, Narvik og endað í Bergen. Í sumar verðum við mikið í Skandinavíu og tökum eina ferð til Íslands áður en skipið fer í Miðjarðarhafið.”
Hefur eitthvað sérstakt komið upp á hjá ykkur síðan þú hófst störf?
„Nei, þetta hefur bara gengið ótrúlega vel. Ætli það markverðasta sem hafi gerst hafi ekki verið þegar það fæddist lítill drengur um borð í fyrsta skipti hjá Viking. Það var stór dagur fyrir alla,“ segir Gísli Valur að endingu.
Viðtalið birtist fyrst í sjómannablaði Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst