Endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var til umfjöllunar hjá bæajarráði Vestmannaeyja í liðinni viku. Fyrir liggja í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar gagngerar breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er miða að því að bæta gæði jöfnunar og einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins auk þess að umgjörð sjóðsins endurspegli og fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar. Umsagnarfrestur er til 5. mars. Bæjarstjóri og framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs áttu fund með framkvæmdastjóra sjóðsins, starfsmönnum og formanni ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðsins um stöðu og áhrif á Vestmannaeyjabæ með breytingu á lögunum.
Fram kemur í afgreiðslu bæjarráðs að ráðið árétti umsagnir við fyrri frumvörp um Jöfnunarsjóðinn og mótmælir sérstaklega niðurfellingu á fasteignaskattsframlaginu. Bæjarráð telur það jákvætt skref að breyta viðmiðum tekjuhagkvæmniferlis sem mun lækka línulega milli tvö þúsund og ellefu þúsund íbúa. Miðað við frumvarpið er ljóst að framlag til Vestmannaeyjabæjar úr jöfnunarsjóði mun skerðast um tæpar 80 milljónir. Bæjarráð samþykkir samhljóða drög að umsögn og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að senda hana í samráðsgáttina.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst