Saltey er nýtt fyrirtæki hér í Vestmannaeyjum sem hóf nýverið sölu á handgerðu hágæða flögusalti. Saltey er lítið fjölskyldufyrirtæki sem Elín Laufey Leifsdóttir og Jóhannes Óskar Grettisson eiga ásamt börnum sínum, Gretti, Leif og Guðrúnu Ósk og tengdadóttur sinni, Gígju Óskarsdóttur. Blaðamaður Eyjafrétta settist niður með bræðrunum en allt þetta hófst fyrir tveimur árum.
,,Ég sat eitt kvöldið að horfa á sjónvarpið þegar ég sé þátt um hvernig á að búa til sjávarsalt og hugsaði með mér, þetta getum við gert,” sagði Grettir aðspurður um upphafið. Þjóðhátíðarhellan var dregin fram og stór pottur var keyptur í Vosbúð og fyrsta prufa var framkvæmd í bílskúrnum þann 13. júní 2021. ,,Fylltar voru nokkrar tveggja lítra flöskur af sjó niðri í Vinnslustöð og ferjaðar heim. Sjór við Ísland er um 2,8-3% saltur og til þess að hægt sé að búa til flögusalt þarf að tífalda pækil styrkin að lágmarki,” sagði Leifur. Fyrsta tilraun heppnaðist en þegar kom að þurrkun þurfti aftur á móti að prófa ýmislegt til að athuga hvort þetta gæti í alvörunni gengið. ,,Við prófuðum nokkrar leiðir til að þurrka saltið, mamma og pabbi eiga infra rauðan klefa, hann var prófaður, bakaraofninn, hitaperur og allskonar æfingar en þetta tókst og við fengum flögusalt,” sagði Leifur og Grettir bætti við þegar þeir sáu að þetta var gerlegt og fyrst og fremst skemmtilegt var farið í ýmsa útreikninga til að sjá hvort þetta væri skynsamlegt.
Fyrsta tilraun framkvæmd í bílskúrnum á Þjóðhátíðarhellunni.
Vestmannaeyskt hugvit
Hafist var að handa um haustið 2021 að finna út hvernig tæki væri best að nota í framleiðsluna, bæði með góða afkastagetu sem hámarki gæði vörunnar en hagkvæm í rekstri. ,,Í samstarfi við Vélaverkstæðið Þór, Kapp og Hafnareyri voru hönnuð framleiðslutæki sem afkasta um fimm til sjö kíló af salti á dag. Kapp smíðaði fyrir okkur suðupott eftir hugmyndafræði okkar og Sævalds Páls í Þór. Sérútbúinn kristalsborð voru einnig hönnuð og smíðuð af Vélaverkstæðinu Þór. Hafnareyri sá um allt sem viðkemur rafmagni í framleiðslutækjunum okkar. Þetta er ekki mikil framleiðsla en góð byrjun. Eyjablikk smíðaði fyrir okkur sér útbúin sigti, en við getum því sigtað í þrjár mismunandi stærðir af salti,” sagði Grettir og bætti við að fjölskyldunni hafi fundist mjög mikilvægt að versla við fyrirtæki hér í Eyjum eða nýta sér alla Eyjatengingar sem og hugvit Eyjafólks. ,,Á þessum tveimur árum höfum við fundað með mikið af fólki sem hefur hjálpað okkur við að komast á þann stað sem við erum í dag og erum við því fólki ótrúlega þakklát,” sagði Leifur.
Þakklát fyrir alla aðstoð
Í dag er fyrirtækið staðsett í húsnæði Gríms Kokks en fyrst um sinn fékk fjölskyldan að prófa sig áfram á framleiðslutækjunum innan veggja Vinnslustöðvarinnar. ,,Við erum afar þakklát þeirri aðstoð sem VSV veittu okkur á fyrstu stigum verkefnisins. Þegar við ákváðum að fara með verkefnið upp á næsta stig höfðum við samband við Grím Gíslason, Grím kokk, sem leigir okkur 25-30 fm rými. Samstarfið við Grím og Ástu Maríu, eiginkonu hans, hefur gengið afar vel og dýrmætt að hafa reynslubolta í matvælaframleiðslu með sér í liði,” sagði Grettir og Leifur bætti við að gríðarleg þekking búi í samfélaginu í Eyjum. ,,Það er mikill áhugi og vilji til að aðstoða hvert annað. Það kom bersýnilega í ljós um liðna helgi þegar Matey var haldinn. Krafturinn sem býr í samfélaginu hér er magnaður.”
Famleiðsluferlið
Aðspurðir út í framleiðsluferlið stóð ekki á svörum hjá bræðrunum. ,,Sjórinn er tekinn úr borholu úr Heimaey þar sem skapast ákveðin sérstaða. Sjórinn hefur síast í gegnum hraunlögin og er því sérstaklega hreinn og einstakur. Það tekur um 20 til 30 daga að sjóða sjóinn. Þá færum við hann yfir á sérsmíðuð kristallborð þar sem uppgufun heldur áfram og flögur myndast á yfirborðinu. Þegar flögurnar eru fullmótaðar sökkva þær á botn borðsins. Við sköfum þá borðinn og setjum saltið í þurrkun. Saltið er sigtað í vissar stærðir, yfirfarið og pakkað í höndunum. Það er því umtalsverður tími sem fer í að búa til saltið en ef vel gengur þá sjáum við fram á að tæknivæða framleiðsluna enn frekar,” sagði Grettir.
Leifur búin að sækja sjó í tveggja lítra gosflöskur og vigtar til að skoða uppgufun.
Tilbúið salt í bökkum. Ein af fyrstu prufunum sem framkvæmdar voru í vinnslustöðinni.
Fleiri vörur væntanlegar
,,Allt frá því að við fengum okkar fyrsta salt höfum við verið í stöðugu samtali við Einar Björn Árnason, Einsa Kalda. Hann hefur verið okkur innan handar í vöruþróun, stærð salt flaga, skammtastærðum og öðru tilfallandi. Einar Björn hefur notað salt frá okkur á veitingastað sínum og erum við ótrúlega þakklát fyrir það, en draumur okkar er auðvitað sá að allir veitingastaðir hér vilji nota okkar hráefni sem er framleitt hér í Vestmannaeyjum,” sagði Leifur. ,,Þegar fram líða stundir áformum við að bæta við bragðtegundum í samstarfi við okkar frábæru kokka,” bætti Grettir við.
Þægilegt, fallegt og vistvænt
Fjölskyldan lagði mikla áherslu á að vera með fallega krukku undir saltið og vera með umhverfisvænar umbúðir. ,,Okkar markmið var að fólk vilji hafa krukkuna uppi á eldhúsborði. Við lögðum mikla áherslu á að hafa hana stílhreina, auðveldan aðgang, bæði að hægt sé að opna með annarri hendi og að þrír puttar komist vel ofan í til að nálgast saltið. Okkur finnst hafa tekist vel til og erum við ótrúlega stolt af vörunni okkar,” sagði Leifur. Krukkan er glerkrukka með bambus loki en svo er hægt að fá áfyllingar á hana. ,,Við viljum að fólk noti krukkuna sína áfram og því erum við með áfyllingar í boði sem eru þá ódýrari. Okkur finnst þetta mjög mikilvægt að reyna sporna við því að fólk kaupi alltaf nýja krukku ef sú sem fyrir er í góðu ástandi og leggja okkar af mörkum í að draga úr úrgangi ,” sagði Grettir.
Vélaverkstæðið Þór smíðaði Kristalborðin.
Eva Laufey stendur við eitt af kristalsborðunum þar sem salt er farið að myndast.
Mikið af hindrunum
Bræðurnir voru sammála um að ferlið hafi tekið mun lengri tíma heldur en þeir hafi áttað sig á til að byrja með. ,,Eins og með flest allt þá tekur allt meiri tíma heldur en upphaflega var gert ráð fyrir en það var líka ákvörðun frá upphafi að vanda til verka og ég held að það hafi tekist vel en auðvitað komu upp ákveðin vandamál sem þurfti að leysa. Við vorum lengi að hanna tækin okkur en það voru ákveðnar hindranir í því ferli og svo þurftum við góðan tíma til læra á þau og hvað þurfti til að fá hið fulkomna salt. Ég hélt að salt væri bara salt en það er svo sannarlega ekki þannig,“ sagði Leifur og Grettir bætti við það hefði tekið langan tíma að finna hina fullkomnu krukku. ,,Hverjum hefði dottið í hug að finna hina fullkomnu krukku og hanna merkimiða á hana væri svona tímafrekt. Við handgerum allt í ferlinu og hver einasti límmiði er límdur handvirkt á krukkuna. Þar sem krukkan er 5mm mjórri við botninn getur það verið vandað verk að koma límmiðanum rétt á,” sagði Grettir og hló.
Aron Dagur sáttur með afraksturinn.
Viðtökurnar framar vonum
Saltið er nú komið í sölu í verslunum hér í Vestmannaeyjum sem og á heimasíðuni Saltey.is. ,,Það var stór áfangi þegar saltið fór í sölu í byrjun september en það fæst í Heimadecor, Póley, Eldheimum og Hárstofu Viktors. Heimasíðan fór svo í loftið um liðna helgi en allar myndir þar eru teknar af ungum og efnilegum ljósmyndara, Stefáni Geir Gíslasyni en hann er 15 ára Eyjapeyji,” sagði Leifur. Aðspurðir út í viðtökurnar eru bræðurnir sammála um að þær hafi verið framar sínum björtustu vonum. ,,Við runnum blint í sjóinn og vorum með ákveðnar væntingar en viðtökurnar eru framar okkur björtustu vonum og við finnum gríðarlegan áhuga hjá fólki og strax er farið að biðja um áfyllingu á krukkuna sem er mjög jákvætt og er það núna verkefni næstu daga að koma áfyllingar pokum í sölu,” sagði Grettir að lokum.
Greinina má einnig lesa í 19. tbl Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst