Endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var til umræðu á fundi bæjarráðs sem fram fór í gær. Í samráðsgátt stjórnvalda er að finna til umsagnar frumvarp til laga og skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Umsagnarfrestur er 27. mars 2023. Markmiðið er að bæta gæði jöfnunar, einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins og að Jöfnunarsjóður fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar. Tillaga starfshópsins er nýtt líkan sem leysir núverandi tekjujöfnunar-, útgjaldajöfnunar- og fasteignaskattsframlög af hólmi og að eftirfarandi breytingar verði gerðar á sjóðnum:
1. Nýtt jöfnunarframlag verði veitt vegna sérstakra áskorana sem skiptist í:
a. Framlag vegna sérstaks byggðastuðnings.
b. Framlag til sveitarfélaga með sérstakt höfuðstaðarálag.
2. Breytingar á framlögum vegna íslensku sem annað tungumál. Lagt er til að Reykjavíkurborg fái greidd framlög vegna kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál.
3. Vannýting útsvars dregin frá framlögum.
Starfshópurinn leggur til að nýti sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu komi til skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sem nemi vannýttum útsvarstekjum (þ.e. mismun á útsvari miðað við hámarksálagningu) og útsvari miðað við álagningarhlutfall sveitarfélags.
Verði þessar breytingar að veruleika munu framlög til Vestmannaeyjabæjar úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga skerðast um 184 m.kr.
Bæjarráð mótmælir í niðustöðu sinni tillögum innviðaráðherra um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með þeim hætti sem fyrir liggur í Samráðsgátt stjórnvalda. Sérstaklega mótmælir bæjarráð breytingum á fasteignaskattsframlögum. Með þessum aðgerðum er verið að gera breytingar á grundvallarskipulagi Jöfnunarsjóðsins, þvert á það sem haldið er fram í skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverkinu og í frumvarpi innviðaráðherra.
Bæjarráð felur bæjarstjóra og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að útbúa umsögn þar sem breytingunum er mótmælt og á þeim nótum sem að ofan greinir.
Samráðsgátt stjórnvalda endurskoðun á regluverki um Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.pdf
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst