Í hádeginu í dag fór fram í Eldheimum afhending Fréttapýramídanna sem er viðurkenning til þeirra sem þykja hafa skarað fram úr á liðnu ári eða unnið að bættum hag Vestmannaeyja í gegnum árin.
Fjölmennt var og hófst dagskráin með því að Trausti Hjaltason, formaður stjórnar Eyjasýnar sem á og gefur út Eyjafréttir og vefmiðilinn eyjafrettir.is ávarpaði gesti og greindi frá því helsta úr sögu félagsins á nýliðnu ári. Í boði var súpa frá Einsa Kalda sem Einar Björn reiddi fram af mikilli list.
Eyjamaður ársins er Gísli Valtýsson sem að mati Eyjafrétta hefur alla tíð þjónað Vestmannaeyjum af mikilli trúmennsku í starfi og sem sjálfboðaliði fyrir íþróttahreyfinguna og fleiri félög.
Framtak ársins í Vestmannaeyjum er að mati Eyjafrétta Matey – Sjávarréttahátíð. Þar var farin ný leið til að kynna Vestmannaeyjar og það sem þær hafa upp á að bjóða. Fulltrúar veitingastaðanna Einsa Kalda, Gott og Slippsins og Ísfélags og Vinnslustöðvar tóku á móti viðurkenningunni.
Framlag til íþrótta í Vestmannaeyjum í áratugi komi hlut hjónanna Hlyns Stefánssonar og Unnar Sigmarsdóttur fyrir áratuga þátttöku og starf í þágu íþrótta í Vestmannaeyjum. Bæði sem keppendur þar sem bæði náðu því að verða Íslandsmeistarar, Hlynur í fótbolta og Unnur í handbolta. Lind Hrafnsdóttir, systir Hlyns og Sigmar Pálmason, faðir Unnar tóku við Fréttapýramídanum fyrir þeirra hönd.
Fréttapýramýdann 2024 fyrir framlag til menningar- og ferðamála fékk Kristín Jóhannsdóttir, safnstjóri Eldheima sem hefur unnið frábært starf í að kynna Vestmannaeyjar og efla menningarlíf Eyjanna.
Magnús R. Einarsson, las endurminningar Jóhanns Friðfinnssonar, föður Kristínar úr gosinu. Áhugaverð upprifjun og frábær lestur Magnúsar.
Okkar maður, Jóhann Halldórsson, sem skrifað hefur pistla á Eyjafréttir.is þar sem hann veltir upp stöðu og framtíð Vestmannaeyja sem hann kallar Litlu Mónakó flutti athyglisvert erindi um þýðingu Laxeyjar fyrir Vestmannaeyjar og þá möguleika sem opnast með opnun hótels og baðlóns á Nýja hrauninu. Að hans mati þurfum við ekki að kvíða framtíðinni.
Myndir frá Óskari Pétri Friðrikssyni má sjá hér að neðan. Einnig má sjá myndband af hluta af dagskránni, en vegna tæknilegra örðuleika náðist ekki öll dagskráin á myndband.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst