Eins og maður verður oft hryggur þegar illar fréttir berast alls staðar að úr heiminum, verður maður glaður þegar góðar fréttir berast. Þannig barst okkur afar góð frétt í morgun. Góða fréttin var sú að annað skiptið í röð hafa stýrivextir verið lækkaðir, og þó nokkuð. Þetta er gert nú vegna þess að verðbólgan er á niðurleið. Ein meginástæðan fyrir því að verðbólgan er á niðurleið eru svo þeir kjarasamningar sem verkalýðshreyfingin náði fram síðast. Aðkoma ríkisvaldsins að þessum kjarasamningum var fjölþætt og mikilvæg og má segja að hún hafi ráðið úrslitum um að hægt var að semja. Þessi aðkoma ríkisins var fyrst og fremst undir forystu Vinstri grænna í ríkisstjórn. Ráðherrar Vinstri grænna töldu að eina leiðin til að skapa frið á vinnumarkaði, lækka verðbólgu og vexti væri aðkoma stjórnvalda. Það tókst og nú sér almennt launafólk í landinu vonandi fram á bjartari tíð.
Þetta sagði forseti ASÍ í morgun þegar hann var spurður hvort þakka mætti kjarasamningunum um lækkun verðbólgu og vaxta nú: „Já, já, bara að stærstum hluta því að það eru kjarasamningarnir sem komu ró á markaðinn og sýndu fyrirsjáanleika. Þannig að það eru fyrst og síðast kjarasamningarnir sem að eru að byggja undir þetta, að við erum að keyra verðbólgu niður og þar með vexti.“
Viðbrögð formanns Samfylkingarinnar voru hins vegar ekki eins jákvæð og forseta ASÍ. Hún taldi aðalvandamálið vera að ekki væri komið nóg til móts við „millistéttina“ eins og hún orðaði það. Hún minntist hvorki á láglaunafólk né ungt fólk sem á fáa sem enga möguleika til að eignast þak yfir höfuðið. Hún hefur greinilega engar áhyggjur af því fólki.
Góða fréttin sem ég hef hér gert að umtalsefni er að mínu mati dæmi um að Vinstri græn hvika ekki og munu ekki hvika frá þeirri stefnu að berjast fyrir bættum kjörum almennings í landinu.
Flestir aðrir flokkar bjóða nú fyrir kosningar upp á alls konar flugeldasýningar og segjast ætla að gera allt fyrir alla. Slíkt og því um líkt gengur einfaldlega ekki upp.
Vinstri græn kjósa frið, samheldið samfélag, náttúruna og kvenfrelsi.
Verum vinstra megin! Kjósum X V
Ragnar Óskarsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst