Fjölskyldu- og tómstundaráð samþykkti á fundi sínum fyrr í mánuðinum reglur um frístundastyrk sem taka gildi 1. janúar nk. Ráðið fól Jóni Péturssyni, framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að kynna frístundastyrkinn sem er 25.000 krónur á einstakling á aldrinum sex til 16 ára.
Jón segir að í grófum dráttum séu reglurnar þær að frístundastyrkurinn er fyrir börn með lögheimili í Vestmannaeyjum. Honum er úthlutað til foreldra eða forráðamanna vegna greiddra þátttökugjalda hjá þeim félögum, fyrirtækjum eða stofnunum sem hafa gildan samstarfssamning hjá Vestmannaeyjabæ. Listar yfir samstarfsaðila hverju sinni verða á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar.
Gert er ráð fyrir að tímabil hverrar styrkveitingar sé almanaksárið og yrði því styrkurinn til ráðstöfunar frá og með 1. janúar ár hvert. Réttur til frístundastyrks fyrir hvert ár fellur niður í árslok. �?nýttir frístundastyrkir geymast ekki milli ára. Hægt er að skipta frístundastyrknum niður á fleiri en eina tómstundaiðju en ekki þarf að ráðstafa öllum frístundastyrknum í einu. Frístundastyrkur er einungis greiddur út vegna námskeiða sem standa yfir í a.m.k. sex vikur samfellt.
Frístundastyrkurinn gildir ekki sem greiðsla fyrir aðbúnað, ferðalög eða annan tilfallandi kostnað vegna keppni eða þjálfunar. Um er að ræða beingreiðslur til foreldra eða forráðamanna barns. �?thlutun frístundastyrkja fer fram í gegnum Vestmannaeyjabæ.
Foreldri eða forráðamaður greiðir þátttökugjöld í nafni barns síns til samstarfsaðila Vestmannaeyjabæjar og framvísar frumriti kvittunar ásamt umsóknareyðublaði til skrifstofu Vestmannaeyjabæjar.
Frístundastyrkur var eitt af baráttumálum Eyjalistans fyrir síðustu kosningar og nú sjá þau þann draum sinn rætast.