Vestmannaeyjabæ barst tilkynning frá skólastjóra Hamarsskóla rétt fyrir vetrarleyfi grunnskólans vegna grunsemda um mögulega myglu í skólanum. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Eyjafrétta höfðu þá komið fram áhyggjur af loftgæðum í ákveðnum rýmum og einn kennari farið í veikindaleyfi.
Bæjarfélagið brást tafarlaust við tilkynningunni. Kallaðir voru til sérfræðingar til að framkvæma mælingar og meta hvort um myglu gæti verið að ræða, auk þess sem þrifaaðili var virkjaður til að framkvæma ítarleg þrif á meðan vetrarleyfi stóð yfir.
Samkvæmt upplýsingum frá Brynjari Ólafssyni, framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar leiddu mælingar og loftprófanir sérfræðinga í ljós að engin mygla fannst í skólanum. „Niðurstöður mælinga voru skýrar — ekki er um myglu að ræða,“ segir hann.
Hann tekur þó fram að unnið sé áfram að því að bæta aðstæður. Nú er verið að endurskoða þrifaáætlanir og bæta loftun í skólanum, meðal annars með reglubundinni útloftun. „Það er alls ekki gott að missa starfsmenn í veikindaleyfi og við munum halda áfram að leita orsaka,“ segir Brynjar. Engin einkenni hafa komið fram hjá nemendum né öðrum starfsmönnum. Vestmannaeyjabær mun halda áfram að fylgjast með stöðunni og grípa til frekari aðgerða ef þörf krefur.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst