Bæjarráð Vestmannaeyja fundaði með nýjum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Eyjólfi Ármannssyni, þann 6. febrúar sl. Farið var yfir þau mál sem eru á borði ráðherrans og snerta Vestmannaeyjabæ, segir í fundargerð bæjarráðs.
Þar var farið yfir dýpkun í Landeyjahöfn, en útboð er áætlað í vor og nýr samningur í framhaldi. Nauðsynlega þarf að tryggja tæknilega getu og afköst þeirra sem sinna dýpkuninni og tryggja þarf nægt fjármagna til sinna dýpkun allt árið.
Samningur um rekstur Herjólfs var ræddur og sú þjónusta sem verið er að veita. Einnig var rætt var um mikilvægi þess að afleysingarskip fyrir Herjólf lV sé staðsett í landinu. Þá var rætt við ráðherra um mikilvægi ríkistyrkts flugs fyrir Vestmannaeyjar, stöðu þess og framtíðarsýn. Bæjarráð lagði áherslu á að lengja tímabilið sem flugið er styrkt.
Farið var yfir stöðuna vegna kaupa á almannavarnalögn NSL4. Framlag ríkisins er 800 milljónir samkvæmt viljayfirlýsingu en heildarverð með útlagninu er áætlað á bilinu 2,2 og 2,4 milljarðar. Áframhaldandi samtal er í gangi við ráðuneytið vegna kostnaðar. Farið var yfir það með ráðherra að bæjarráð telur óeðlilegt að íbúar í Vestmannaeyjum greiði fyrir almannavarnarlögnina NSL4.
Gangaskýrslan um fýsileika ganga til Eyja var rædd. Ráðherra ætlar að kynna sér gögn og framtíðarsýn. Ráðherra er mikill áhugamaður um uppbyggingu jarðganga á Íslandi. Bæjarráð lagði þunga áherslu á að ráðherra tryggði fjármagn til að klára þær rannsóknir sem tillögur eru um í skýrslunni. Fyrsti fasi er áætlaður 60 milljónir króna.
Ráðherra spurði um uppbyggingu á landeldi í Eyjum. Einnig spurði ráðherra um verkefnið Kveikjum neistann sem hann er mikil áhugamaður um og lýsti ánægju sinni með það hvernig Vestmannaeyjabær sýndi frumkvæði í menntamálum.
Að endingu var staða Reykjavíkurflugvallar rædd. Reykjavíkurborg hefur hafist handa við að fella tré í Öskjuhlíðinni til að tryggja megi flugöryggi við Reykjavíkurflugvöll. Flugbrautin er enn lokuð og bæjarráð skorar á aðila að tryggja það að flugbrautin verði opnuð sem fyrst. Í forgangi er að opna brautina fyrir sjúkraflug til að tryggja aðgengi og öryggi íbúa á landsbyggðinni að þjónustu Landspítalans.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst