Galin loforð sem gleymdust
12. maí, 2022
Feneyjar á Faxaskeri
Hér má sjá hinar frægu "Feneyjar norðursins" á Faxaskeri.
Krisinn Pálsson
Kristinn Pálsson

Fyrir skemmstu hvatti ég með grein frambjóðendur og aðra til skemmtilegra skrifa í kosningabaráttunni. Höfum við síðan notið þess að skauta yfir hið ritaða orð þó skemmtanagildið sé auðvitað háð mati hvers og eins lesanda. Nú hafa framboðin þrjú öll gefið út stefnuskrá fyrir komandi kosningar og soðið saman ýmsa pistla um sínar helstu hugmyndir, aðgerðir og áætlanir. Þannig hefur ágæti hverrar stefnu verið tíundað fyrir kjósendum. Í bæklingum flokka kennir ýmissa grasa um breytingar og endurbætur á samfélaginu, innviðum þess og ásýnd. Orðalag, framsetning og slagorð keppast við að lofa að „góður bær verði betri“ eða „betri bær bestur“. Enginn þorir þó að ætla gera „góðan bæ galinn“ eða „betri bæ geggjaðan“. Því ætla ég að leyfa mér að nefna hér þrjár geggjaðar hugmyndir, sem í raun eru svo galnar að ég er gáttaður yfir því að þær hafi ekki nú þegar komið til framkvæmda. Þetta eru greinilega hugmyndirnar sem lifðu ekki af umræðu á málefnafundum framboða og finnast því hvergi á prentuðum stefnuskrám. Lesi hver á eigin ábyrgð og skemmti sér sem vilja.

Hvítan sand í Klaufina

Hin fræga „Costa del Klauf“ hefur um langt skeið verið vinsæll viðkomustaður fólks og hafa undanfarin ár fleiri en aðeins lundapysjurnar stundað þar sund. Ekki er það að furða enda „Kanaríeyjar norðursins“ þekktar fyrir mikla veðursæld og hinn hlýja Golfstraum. Þessu svæði þyrfti þó eiginlega að umturna og flytja þangað hvítan sand og sólbekki. Fyrir nokkrum árum hefði mátt lána Binna í Vinnsló eins eina góða Moulinex-matvinnsluvél til þess að framleiða fyrir okkur heimagerðan skeljasand eftir góða humarvertíð. Til vara á Daddi Mar mögulega einhverjar hvítar flísar sem mylja mætti eða kannski kurla niður nokkur brotin klósett. Umhverfið þarf svo skreyta með innpökkuðum pálmatrjám í glæsilegum glerstrendingum og hinu litlausa melgresi skal skipt út fyrir betri strá frá Danmörku. Markaðssett yrði „náttúrlega köld ylströnd“ en fólk virðist elska ýmsar „ekki-vörur“ eins og gervisykraða gosdrykki og koffínlaust kaffisull. 

Þar mætti nú kannski líka reisa á ný marg um sunginn sundskála sem bæði leigir sól og selur sjó. Ekki mun svo líða á löngu þar til hávær krafa kemur um að byggður verði glerhjúpur frá Höfðanum og yfir á Breiðabakka. Hafa þá framboðin einhverju að bæta við stefnuskrár sínar að fjórum árum liðnum.

Helgardjamm á Herjólfi

Bundinn er við bryggju Herjólfur Þriðji og bíður þar örlaga sinna. Hann fæst á litlar einar 600 milljónir fyrir þann sem glæsifleyið girnist. Besta hugmyndin yrði að breyta Herjólfi gamla í „Ibiza norðursins“. Sjálfstæða eyju skemmtanalífs sem yrði frábær viðbót fyrir eyjaklasann. Ferjan er fullbúin sölum, svefnrýmum og salernum og er því í raun ekkert að vanbúnaði að hefja rekstur þar strax. Á efstu hæð er hægt að dekka borð eða halda gott dansiball í salnum. Bar getur verið fullbúinn þar sem Bryndís Anna, frænka mín, Guðmundsdóttir verður vopnuð teskeiðum og hrærir „Æriss“ eins lengi og úlnliðir hennar endast. Kaffiteríunni verður svo breytt í mathöll þar sem endurnýta má ónotaða æludalla sem take-away dollur. Gistiplássið um borð bætir reksturinn til muna og geta ballgestir tekið sér eins og eina góða „kríu“ milli laga. Rúsínan í pylsuendanum er þó hið flennistóra bílaþilfar þar sem haldið verður froðudiskó að hætti Ibiza með blikkandi strópljósum og ærandi bassakeilum. Plötusnúðarnir Skrillex, Marshmello og Tiësto sækja svo Eyjarnar heim og skemmta heimamönnum fram eftir morgni. Þrifin verða auðveld þar sem umhverfisvænni diskósápunni verður smúlað út um opinn bílahlerann.

Eyjamenn munu síðan hefja útrás á menningu sinni og kenna samlöndum sínum að skemmta sér. Þannig mun skemmtieyjan Herjólfur Þriðji fara hringferð um landið og stoppa í öllum stærri þéttbýliskjörnum. Ekki verður þó lagt upp með að stoppa á Selfossi eða á Egilsstöðum með siglingu upp Lagarfljótið eða Ölfusá. Er það sökum þess að hinir reyndu skipstjórar fraktflutninga Evergreen hafa talið mér trú um að nær ómögulegt yrði að snúa þar skipinu við. Hugmyndin minnir auðvitað helst á markmið fyrrum félagsheimilasjóðs þar sem hið opinbera styrkti byggingu samkomuhúsa landsins til þess að varðveita menningu ofsadrykkjunnar svo komandi kynslóðir fengju líka notið.

Feneyjar á Faxaskeri

Deilur hafa sprottið upp um hvernig þróa megi nýjan eða betri miðbæ í Vestmannaeyjum, hve margir þeir skulu vera og hvar. Hætta fáir sér út á þann vígvöll að deila um tilvist Nýja-hraunsins eða núverandi bílastæða á mögulegum byggingarlóðum miðbæjarins. Ein er þó lausnin sem uppfyllir kröfur og væntingar allra aðila. Hún lofar nýjum og betri miðbæ og meira mannlífi. Hún fjarlægir engin bílastæði úr gamla miðbænum en bætir samt við fjölda nýrra göngugatna. Nýja-hraunið verður óhreyft á sama tíma og gamla Heimatorginu verður gert hátt undir höfði. Byggð fyrir miðbæjarstarfsemi verður nefnilega skipulögð á um þriggja hektara Faxaskerinu. Þar verða „Feneyjar norðursins“ á harðgerðum klettunum. Ekki þarf að hafa áhyggjur af því að húsin sígi í sæ líkt og í „Feneyjar suðursins“ þar sem skerið hefur hingað til staðið af sér alla þá austanátt sem Eyjarnar hafa upp á að bjóða. Nýi miðbærinn mun svo sameina samfélagið í hagsmunabaráttu gegn ríkinu þar sem krafist verður nýrra sjóvarnargarða svo verja megi þær menningarminjar sem byggðar verða. Þannig má báran ekki brjóta um og of á nýju bárujárninu. Með hugmyndinni ætlum við ekki að vera eftirbátar annarra bæja eins og sunnlendinga á Selfossi. Því í „Feneyjar norðursins“ verða nefnilega eintóm endurbyggð gömul hús er áður stóðu í Eyjum. Ekki þurfum við þó að elta Selfyssinga í sögufölsun sinni og ræna önnur samfélög húsum sínum til þess að byggja upp glæsilegan leiktjaldamiðbæ. Slíkt þurfa bara bæir að gera sem fengu kaupstaðaréttindi ári eftir frumsýningu hinnar góðu kvikmyndar, „Saturday night fever“.

Feneyjar á Faxaskeri
Hér má sjá hinar frægu Feneyjar norðursins á Faxaskeri.

Á Faxaskeri verður hægt að finna stórkostlega verslun H&M í Jómsborg, í bankanum við Heimatorg Hard Rock Café, í gömlu prentsmiðjunni glæsihótel og í rafstöðinni óperuhús. Laufás, Þingholt og Borg mynda síðan þyrpingu lítilla lundabúða og hnarreist rísa svo aftur stórhýsin Höfn og Fúsahús en nú sem farfuglaheimili. Kappróðursbátarnir Jötunn og Verðandi hringsóla svo um skerið eins og ítalskir gondólar. En sexæringunum stýra hinir vönu sjómenn og frændur mínir Guðmundur Huginn og Gylfi Viðar. Gestir eru beðnir um að ganga um með lopasokka yfir stígvélum sínum því erfitt getur reynst að fóta sig í þaranum og þanginu.

 

Sökum þess að skammt er til kosninga verður að teljast ólíklegt að hugmyndirnar rati inn á loforðalista framboðanna. Undirritaðan verður heldur ekki að finna á kjörseðlinum og því óljóst hver mun fylgja þessu eftir. Ég er þó viss um að talningu lokinni fái ég símtal frá mögulegum meirihluta til þess að fara yfir frekari útfærslu tillagnanna. Þá tekst við hugsanlega gert „bestastan bæ galnastan“.

Kristinn Pálsson

Facebook
LinkedIn
Pinterest
Reddit
Email
Print
Skoða blaðið á netinu
14. tbl. 2024
14. tbl. 2024

NÝBURAR

Drengur Hristov
2. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Todor Hristov og Marta Möller

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

Nýburi
30. júlí 2024
Stúlka
Heimahúsi á Dalvík
Alexandra Ósk Gunnarsdóttir og Brynjar Ingi Óðinsson

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

Nýfædd stúlka.
4. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Theodóra Ágústsdóttir & Carlos Guani

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

IMG 3174
15. júlí 2024
Drengur
Balingen, Þýskalandi
Sandra Erlingsdóttir og Daníel Þór Ingason

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

tryggvason
30. júní 2024
Drengur
Reykjavík
Tryggvi Stein Ágústsson og Guðný Erla Guðnadóttir

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

nyburar
4. júlí 2024
Drengur
Reykjavík
María Rós Sigurbjörnsdóttir og Bjarni Heimir Kristinsson

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

jon
20. júní 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Logi Snædal Jónsson og Svala Björk Hólmgeirsdóttir

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

Admin Ajax
10. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Unnur Birna Hallgrímsdóttir og Guðmundur Sundström

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

IMG 2282 940x940
29. júní 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Petrúnella Aðalheiður Kristjánsdóttir og Felix Örn Friðriksson

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

IMG 2234 800x800
28. júní 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Helen Dögg Karlsdóttir og Gísli Ingi Gunnarsson

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

Mest lesið
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst