Um síðastliðna helgi var vígður nýr glæsilegur líkamsræktarsalur í Týsheimilinu. Það var sumarið 2023 sem ÍBV fékk gamla Týssalinn afhentan frá Vestmannaeyjabæ til afnota. Salurinn er mjög hentugur sem þreksalur og hefur í gegnum tíðina oft gegnt því hlutverki. Unnið hefur verið í því um nokkurt skeið að fá salinn m.a. Erlingur Richardsson og núverandi og fyrrverandi aðalstjórn. Má þakka þeim ásamt Vestmannaeyjabæ að þetta sé loksins orðið að veruleika.
Salurinn er ætlaður meistaraflokkum félagsins, grunn- og framhaldsskóla akademíum ÍBV ásamt öllum iðkendum hjá félaginu sem náð hafa tilskyldum aldri sem er sextánda aldursár. Mikil þörf var á því að bæta aðstöðu til styrktarþjálfunar hjá félaginu. Deildir félagsins höfðu komið sér upp lágmarksaðstöðu hér og þar í húsnæðum Íþróttamiðstöðvarinnar og Týsheimilinu.
Þetta voru mjög lítil gluggalaus rými sem hentuðu engan veginn. Því má segja að með tilkomu Gullbergs sé um mikla framför að ræða hvað varðar aðstöðu fyrir íþróttafólkið okkar að sinna styrktar þjálfun. Nýr salur býður upp á marga möguleika, stórbætt aðstaða fyrir íþróttafólkið okkar og bætt aðstaða fyrir þjálfara. Samhliða þessu eykst nýtingin á mannvirkinu, enda ávallt einhver í salnum á meðan hann er opinn.
Salurinn er útbúinn öllum helstu þrektækjum sem völ er á, 5 rekkar, stangir og handlóð auk trissuvélar. Á langhlið salarins er 25 metra gervigras renningur sem nýtist vel í hopp og hraða þjálfun. Tvö tæki eru en gera má ráð fyrir því að þau verði komin í lok mánaðarins. Einnig á eftir að koma nýtt hljóðkerfi og skjár í salinn. Salurinn fékk nafnið Gullberg en það nafn er vel við hæfi þarf sem að stærsti bakhjarl verkefnis er Eyjólfur Guðjónsson á Gullberginu.
Ellert Scheving Pálsson er framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags. „Við hjá ÍBV-íþróttafélagi erum alveg gríðarlega þakklát öllu því fólki og fyrirtækjum sem lögðu þessu verkefni hjálparhönd. Þetta er eitt dæmi um það hverju við getum áorkað sem félag þegar allir leggjast á eitt. Þar liggur kraftur okkar félags og við getum tæklað hvað sem er ef við sameinumst um það.
Upp er risinn líkamsræktarsalur á heimsmælikvarða sem nýtist allt frá meistaraflokki niður í 12 ára iðkendur og það má með sanni segja að tilkoma þessa sals hafi glætt nýju lífi í húsið. Það er einnig sérstaklega skemmtilegt að sjá leikmenn beggja greina úr meistaraflokki æfa á sama tíma. Það var alltaf markmiðið, ein leið til að koma á öflugri samskiptum milli deilda. Skemmtilegast finnst mér þó þegar akademían kemur saman á föstudögum. Þá eru u.þ.b. 60 krakkar í salnum, allir með það að markmiði að bæta sig og styrkja. Það gefur manni trú á að framtíðin sé björt. Fyrir hönd ÍBV vil ég þakka öllum þeim sem komu að verkefninu með einum eða öðrum hætti,” segir Ellert í samtali við Eyjafréttir. Fleiri myndir frá vígslu salarins má sjá hér að neðan.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst