Gísli Stefánsson, bæjarfulltrúi og varaþingmaður tók sæti á Alþingi í gær. Hann leysir af Guðrúnu Hafsteinsdóttur á þinginu. Gísli segir í samtali við Eyjafréttir að hann búist við að vera á þingi fram að helgi. „Allavega í þessu úthaldi,” segir hann. Gísli hélt jómfrúarræðu sína í gær er hann fór í atkvæðaskýringu vegna frumvarps um veiðigjöldin. Þar sagði hann:
„Ég sem borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur, kem úr útvegsbæ, finn mig knúinn til að tjá mig um þetta mál sem er ekkert annað en skattahækkun og skattahækkun á fjölskyldur á landsbyggðinni. Tvö af fimm stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum í landinu eru í Vestmannaeyjum. Á síðasta ári þá greiddu þessi félög 1,1 milljarð í veiðigjöld. Ef lögin hefðu verið samþykkt fyrir síðasta ár hefði þessi tala verið 2,6 milljarðar. Þetta bitnar á fjárfestingu í samfélaginu. Þetta lækkar skatttekjur ríkissjóðs til lengri tíma. Þetta letur útflutningsgrein sem hefur byggt þetta land og þess vegna tel ég það fullkomlega rétt að þetta skattamál eigi heima í efnahags- og viðskiptanefnd og ég hvet þingið til að greiða atkvæði með því.”
Í dag fór Gísli aftur í ræðustól undir störfum þingsins. Þá gerði að umtalsefni samgöngur á milli lands og Eyja.
„Fjögur flug á viku þrjá mánuði á ári, 40 mínútna sigling hálft árið, hinn helming ársins þriggja klukkustunda sigling. Hvenær verður hægt að keyra í gegnum göng? Þetta eru staðreyndir og spurningar tengdar samgöngum til og frá Vestmannaeyjum. Orðið sem lýsir ástandinu best er óvissa. Þetta eru þeir þættir sem eru á ábyrgð ríkisins og heimamenn hafa lítið um að segja. Tvö af fimm stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins, 32.000 tonna laxeldi á landi í uppbyggingarferli, fjármagnað í grunninn af Eyjamönnum, 2–4% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar, skuldlaust, öflugt sveitarfélag. Þessar staðreyndir lýsa drifkrafti einkaframtaks og stjórnsýslu í Eyjum. Orðið sem hér mætti nota er ábyrgð. Við rekum Herjólf ohf. sjálf og okkur hefur tekist að gera það vel í þágu íbúa. Landeyjahöfn er hins vegar vandinn. Hún hefur ekki verið kláruð í samræmi við loforð um heilsárshöfn. Það hefur tekið fjögur ár að ná einhverri mynd á flugsamgöngur til Eyja sem heitið getur. Fjögur flug á viku þrjá mánuði á ári getur varla talist nægilega mikið til að mæta þeim vanda sem óhjákvæmilegar vetrarlokanir í Landeyjahöfn valda. Það er ljóst að þarna fer ekki saman hljóð og mynd.
Ég kalla eftir samræmi í aðgerðum stjórnvalda í samgöngumálum milli lands og Eyja og þeirra gæða sem Eyjamenn skapa sér og öðrum landsmönnum. Vestmannaeyjar eru náttúruperla sem samkvæmt könnun Ferðamálastofu og Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja aðeins 4% þeirra ferðamanna sem ferðast um Suðurlandið ár hvert heimsækja. 4.000 af hverjum 100.000. Þar endurspeglast það litla sem enga traust sem ferðaþjónustufyrirtæki hafa á áreiðanleika samgangna til og frá Vestmannaeyjum. Í nýlegri skýrslu sem innviðaráðuneytið lét gera um fýsileika jarðganga til Vestmannaeyja kemur fram að ávinningur af göngum yrði mikill fyrir samfélagið, bæði með tilliti til ferðatíma og ferðaöryggis en líka aukinnar ásóknar ferðamanna sem aftur myndi skila frekari útflutningstekjum.
Ég skora á innviðaráðherra að tryggja fjármagn sem allra fyrst; 60 milljónir til að hefja rannsóknir til að kanna það hvort það sé hægt að bora göng og um leið að bæta úr aðstæðum í Landeyjahöfn og tryggja flug til lengri tíma.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst