Þeir Hannes Gústafsson, Friðrik Már Sigurðsson og Theodór Sigurbjörnsson, sem kalla sig Glacier Guys, hafa glatt fólk með söng sínum og góðum boðskap. Þeir hafa síðastliðnar vikur verið að safna fyrir og styrkja góð málefni og hafa nú þegar styrkt Landakirkju, Krabbavörn og Kjarnann svo eitthvað sé nefnt. Við fengum að heyra í Hannesi Gústafssyni, einum af meðlimum Glacier Guys.
„Þetta byrjaði þannig að við vorum bara að syngja og fíflast og leika okkur í vinnunni. Svo færðist þetta yfir í söng í bílnum. Svo bara einu sinni tókum við lag sem hljómaði ágætlega, þannig við ákváðum að taka það upp á símann hans Frikka í gamni og þá bara byrjaði eitthvað.“
Söngur þeirra hefur aldeilis undið upp á sig en þeir stigu á svið í fyrsta sinn á kvennakvöldi handboltans, ásamt því að vera leynigestir á Lundaballinu í nóvember síðastliðnum. Viðtökurnar hafa verið afar góðar að sögn Hannesar og bætir við að þeir séu engir atvinnumenn í söng, en að fólk hafi gaman að þessu og að þeir hafi gaman að þessu sömuleiðis. Rúsínan í pylsuendanum sé auðvitað framlag þeirra til góðgerðamála. Fyrirtæki Hannesar, H. Harði hefur tekið að sér hingað til að styrkja góð málefni, en svo tóku strákarnir sig saman og fóru á milli fyrirtækja hér í Eyjum og söfnuðu 1.250.000 krónum. Þeir gáfu kirkjunni eina milljón króna nú fyrir jólin, sem er ætluð til mataraðstoðar, og munu þeir einnig veita 250.000 krónur til stuðnings fötluðum.
Strákarnir hafa notið mikils þakklætis frá þeim aðilum sem hafa tekið við styrkjunum sem þeir segja vera einstaklega gefandi. Í tilefni söfnunarinnar ákváðu þeir að flytja jólalag og deildu nýverið myndbandi þar sem þeir syngja jólalagið „Komdu um jólin“ í þýðingu Gunnars Ólafssonar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst