Stjórn HS Veitna hf. samþykkti á fundi sínum í dag ársreikning félagsins vegna ársins 2023.
Hagnaður fyrirtækisins nam 1.023 m.kr. á móti hagnaði árið 2022 uppá 806 m.kr. Hagnaður af reglulegum rekstri hækkaði um 293 m.kr. Hagnaður fyrir fjarmagnsliði jókst um 292 m.kr. Tekjur hækkuðu um 1.207 m.kr. þar af 1.004 m.kr. vegna tekna af orkusölu.
Gjaldfærður tekjuskattur nam 203 m.kr. árið 2023 á móti 127 m.kr. árið 2022. Tekið er fram að afkoma ferskvatnsdeildar er undanþegin tekjuskatti og var virk skattprósenta því 16,6% árið 2023 en var 13,6% 2022.
EBITDA ársins 2023 er 3.918 m.kr. (39,7%) á móti EBITDA 3.560 m.kr. (41,1%) fyrir árið 2022. Samkvæmt efnahagsreikningi er eigið fé í árslok 15.726 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall félagsins 45%.
Stjórn ákvað að leggja ekki til að greiddur verði út arður vegna afkomu ársins. Það var ekki heldur gert í fyrra. Þá keypti félagið eigin bréf fyrir 500 milljónir króna og lækkaði hlutabréf um sömu fjárhæð með útgreiðslu til hluthafa.
Í skýrslu stjórnar er farið yfir jarðskjálfta og eldgos á Reykjanesskaga sem hafi orðið til þess að fyrirtækið varð að grípa til ýmissa ráðstafana til að verja eignir og minnka líkur á þjónusturofi. Þá eigi eftir að koma í ljós hve mikið viðhaldskostnaður eykst og hvaða tjón hlýst af náttúruhamförum síðustu mánaða. Auk þess hlaust aukinn kostnaður af raforkuskorti í Vestmannaeyjum þegar knýja þurfti kyndistöð HS veitna með olíu í stað rafmagns.
Þá kemur fram hjá endurskoðanda fyrirtækisins í áritun hans að umtalsvert flækjustig sé á tekjuskráningu hjá HS veitum vegna flókinna tölvukerfa og fjölda viðskiptavina. Það feli í sér eðlislega áhættu sem snúi að nákvæmni og heild í tekjuskráningu. Þetta var því ein af megináherslum í endurskoðun reikningsins og tekjuskráning prófuð.
Áform um að leggja tvo nýja rafstrengi 2025
Í skýrslu og yfirlýsingu stjórnar og forstjóra HS Veitna í ársreikningnum segir að raforkuöryggi sé einnig ábótavant í Vestmannaeyjum en í upphafi árs varð bilun í Vestmannaeyjastreng 3 sem Landsnet á og rekur.
Með varavélum og eldri neðansjávarstrengjum Landsnets tókst að tryggja íbúum og atvinnulífi í Vestmannaeyjum rafmagn en stórnotendur á skerðanlegum flutningi lentu í skerðingum. Viðgerð á strengnum lauk ekki fyrr en í lok ágúst.
Vegna þessa var kyndistöð HS Veitna í Vestmannaeyjum sem framleiðir heitt vatn knúin áfram á olíu þegar raforkuflutningur var skertur, með tilheyrandi kostnaðarauka. Það horfir þó til bjartari tíma í Eyjum þar sem Landsnet hafa áform um að leggja tvo nýja rafstrengi með áætluð verklok síðari hluta ársins 2025.
Ágreiningur við Vestmannaeyjabæ vegna viðgerðar vatnslagnar
Neðansjávarlögn Vestmannaeyjabæjar sem flytur kalt vatn til Eyja skemmdist þegar Huginn VE55 olli tjóni á henni. HS Veitur eiga og reka vatnsveituna í Vestmannaeyjum og hafa afnotarétt af neðansjávarlögn til að flytja neysluvatn frá landi til Eyja og hafa fyrirframgreitt Vestmannaeyjabæ fyrir afnotin til ársins 2044.
Samkvæmt samningi sjá HS Veitur um rekstur neðansjávarlagnarinnar og hafa verið í aðgerðum til að tryggja að vatn berist áfram um lögnina en ágreiningur hefur verið við Vestmannaeyjabæ sem eiganda lagnarinnar í tengslum við viðgerð á henni. Eftir reikningsskiladag hafa HS Veitur með vísun í forsendubrest og vanefndir á samningi óskað eftir að Vestmannaeyjabær leysi til sín vatnsveituna. Óvissa er uppi um endanleg málalok vegna þessa.
Þrátt fyrir ofangreinda atburði teljum við rekstrarhæfi félagsins gott og horfur um rekstur fyrirtækisins eru góðar, segir í skýrslu og yfirlýsingu stjórnar og forstjóra HS Veitna.
Tengdar fréttir
https://eyjar.net/hagnadur-hja-hs-veitum/
https://eyjar.net/haerra-verd-og-minni-hiti/
https://eyjar.net/ny-vatnslogn-verdi-logd-2024/
https://eyjar.net/segir-orkumalin-i-olestri/
https://eyjar.net/oska-eftir-ad-baerinn-leysi-til-sin-vatnsveituna/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst