Fjörutíu skólar eru skráðir í átakið Göngum í skólann og er Grunnskóli Vestmannaeyja á meðal þeirra eins og síðustu ár. Átakið verður sett hátíðlega miðvikudaginn 6. september í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ en þetta er í sautjánda sinn sem verkefnið er sett hér á landi.
Átakið á rætur að rekja til Bretlands og hefur verið í gangi þar í landi síðan árið 2000. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn október en vegna birtu og veðuraðstæðna fer verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði og lýkur á Alþjóðlega göngum í skólann deginum þann 4. október.
Hvetja til aukinnar hreyfingar
Meginmarkmið Göngum í skólann er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar. Með þessu er ætlunin að hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna en hreyfing vinnur m.a. gegn lífsstílstengdum sjúkdómum, stuðlar að streitulosun og betri sjálfsmynd. Einnig er markmiðið að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. Þar að auki er markmiðið að draga úr umferð við skóla og stuðla að betra og hreinna lofti ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfi. Um leið er verið að stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf.
Samstarfsaðilar að verkefninu eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst