Eftirfarandi bréf er samvinnuverkefni Goslokanefndar, lögreglustjóra og Fjölskyldusviðs Vestmannaeyjabæjar.
Sérstakar reglur skv. barnaverndarlögum, gilda um útivistartíma barna og ungmenna. Rétt er að benda á að þetta eru lög, ekki ábendingar. Í barnaverndarlögunum kemur fram að frá 1. maí til 1. september megi börn, 12 ára og yngri ekki vera á almannafæri eftir kl. 22:00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn á aldrinum 13 til 16 ára mega ekki vera á almannafæri eftir kl. 24:00, nema þau séu á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Ekki þarf annað en að skoða á hvaða tímum sólarhrings börn byrja að fikta með áfengi og aðra vímugjafa, hvenær alvarlegar líkamsárásir og óæskileg kynlífsreynsla eiga sér stað, til að skilja að útivistarreglurnar eru ekki settar fram af tilviljun. Börn og unglingar eiga ekki að vera
úti eftirlitslaus seint að kvöldi og alls ekki eftir miðnætti, sérstaklega við aðstæður sem geta skapast í fjölmenni eins og í kringum Goslokahátíð. Dagskráin gengur vel yfir daginn, en reynslan hefur sýnt okkur að vandamál sem hafa komið upp gerast að næturlagi. Við viljum því hvetja foreldra til að gefa ekki ólögráða ungmennum lausan tauminn án þess að ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja öryggi þeirra, eða að fjölskyldan fari saman og njóti skemmtunarinnar saman. Við viljum öll bæði vernda börnin okkar og hátíðina okkar, þannig að við getum haldið því hátt á lofti að fjölskyldan skemmti sér saman og eigi góðar stundir á Goslokahátíð.
Goslokanefnd Vestmannaeyja
Páley Borgþórsdóttir
lögreglustjóri
Guðrún Jónsdóttir
yfirfélagsráðgjaf