Það var happ fyrir Vestmannaeyjar þegar Kristín Jóhannsdóttir dró Seyðfirðinginn Magnús R. Einarsson, tónlistar- og fjölmiðlamann til Vestmannaeyja. Hefur hann sýnt Eyjarnar í skemmtilegu ljósi í pistlum á RÚV og látið til sín taka í tónlistinni.
Hann var fremstur meðal jafningja á Goslokahátíð í sumar þegar valinn hópur tónlistarmanna hélt einstaklega skemmtilega tónleika með sígildum sönglögum frá Suður-Evrópu með íslenskum textum.
Lög sem lifað hafa með þjóðinni og allir þekkja og elska að rifja upp. Lög eins og: Allt mitt líf, Heyr mína bæn, Kaprí Katarína, Bjössi á mjólkurbílnum, Ég vil fara upp í sveit, Blátt oní blátt, Góða ferð og fl..
Tónleikarnir tókust með eindæmum vel og því tóku menn áskoruninni um að endurtaka þá á meginlandinu. Verða þeir í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði á laugardagskvöldið, 15. október nk.
Flytjendurnir eiga það allir sameiginlegt að vera úr Eyjum eða hafa sterk tengsl við Vestmannaeyjar. Þeirra á meðal eru: Andrea Gylfadóttir, Silja Elsabet, Hrafnhildur Helgadóttir, Þórarinn Ólason, Eggert Jóhannsson og Magnús sem er jafnframt tónlistarstjóri og kynnir kvöldsins.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst