Svo virðist sem ekkert lát sé á eldgosinu í Eyjafjallajökli og að frekar bæti í en hitt. Gosmökkurinn hefur farið upp í allt að tíu kílómetra hæð og en Eyjamenn fylgjast vel með gosinu enda útsýni gott frá Heimaey, svo lengi sem ekki er þoka eins og undanfarna daga. Í gærkvöldi var skyggnið hins vegar ágætt og þá sást í eldglæringarnar í fyrsta sinn frá Eyjum. Óskar Pétur Friðriksson náði myndum af gosstrókinum.