Ég hef stundum verið að hugsa um það að undanförnu hve þægilegt það er að vera eldri borgari í Vestmannaeyjum. Reyndar var þetta orðalag, „eldri borgari“ aldrei notað hér á árum áður, heldur alltaf talað um gamalmenni og alltaf haldin sérstök skemmtun árlega sem bar heitið Gamalmennaskemmtunin. En svo þótti einhverjum þetta orð niðrandi og þá var breytt um og farið að tala um eldri borgara. Ég hef aldrei skilið hvað er niðrandi við orðið gamalmenni og spyr oft í búðum hvort ekki sé þar veittur gamalmennaafsláttur. Þá horfa menn yfirleitt á mig undrunaraugum. Til eru önnur orð af sama toga, svo sem ungmenni og hraustmenni og ég hef aldrei skilið af hverju það er talið niðrandi að vera orðinn gamall.
Ég hef allt frá áramótum verið áskrifandi hjá veitingastaðnum Gott að matarsendingum í hádeginu, sem bærinn niðurgreiðir og hef áður lýst ánægju minni með þá þjónustu. Á hverjum virkum degi í hádeginu rennir bíll upp að Gvendarhúsi með matarskammt dagsins. Og alltaf er sama tilhlökkunin ríkjandi. Yfirleitt geymi ég sendinguna til kvöldsins og snæði hana þá með góðri lyst og svo er yfirleitt afgangur til að fá sér í hádeginu daginn eftir enda skammtarnir ríflega útilátnir. Og ég hef aldrei á þessum tíma fengið vondan mat en sumir réttirnir eru í sérstöku uppáhaldi.
Svo kemur líka fyrir að útkeyrslufólkið skilur eftir tvöfaldan skammt og það er líka vel metið, stundum hægt að bjóða öðrum í mat. Eigendur og starfsfólk Gott standa sig alveg frábærlega í þessu. Og svo er þetta ekki dýrt; mér sýnist að ég sé að borga í kringum þúsund krónur fyrir dagskammtinn og ég hef fundið greinilega fyrir því hvað Visareikningurinn hefur lækkað síðan ég fór í þessa áskrift og hef ekki þurft að fara daglega í búð til að kaupa matföng og meðlæti. Fyrir slíkt hlýtur maður að vera þakklátur.
Hálfsmánaðarlega kemur líka kona upp í Gvendarhús til að þrífa, skúra, ryksuga, taka baðherbergið í gegn og strjúka af húsmunum. Bærinn býður okkur, þessum gömlu, upp á slíka þjónustu og hún er ekki dýr, yfirleitt er reikningurinn fyrir heilan mánuð innan við tvö þúsund krónur. Dóttir mín, sem býr á höfuðborgarsvæðinu, segir að slík þjónusta, fyrir almenna borgara, sé tífalt dýrari þar enda ekki niðurgreidd af bæjarfélaginu
Umhyggja fyrir þeim sem eldri eru
En svo varð ég áþreifanlega var við það í síðustu viku að borin er sérstök umhyggja í Vestmannaeyjum fyrir okkur sem komin erum á efri aldur. Ég þurfti einn daginn að sækja þjónustu á þrjá staði. Byrjaði á Innrömmunarverkstæðinu hjá Viðari, góðvini mínum, við Kirkjuveginn þar sem ég sótti þrjár myndir sem hann hafði rammað inn fyrir mig, að sjálfsögðu á góðu verði. Svo þegar ég ætlaði að kveðja og halda á braut, aftók Viðar að ég færi að bera myndirnar upp tröppurnar og sagðist myndu halda á þeim út í bíl fyrir mig sem hann og gerði.
Því næst lá leiðin í Geisla þar sem ég sótti nokkuð stóran vegglampa sem þar hafði verið í viðgerð. Þegar ég hafði greitt reikninginn sem var með ríflegum afslætti, vegna aldurs, sagði Pétur, frændi minn, að hann ætlaði að halda á lampanum fyrir mig út í bíl og stóð við það.
Og svo endaði ég á að fara í klippingu hjá fyrrum nágranna mínum úr Hrauntúninu, Viktori rakara. Ég kom eins og nýsleginn túskildingur úr því, hárlega séð, og svo impraði Viktor á því við mig þegar ég var að fara úr stólnum hjá honum hvort hann ætti ekki að laga fyrir mig armbandið á úrinu mínu, honum sýndist það vera orðið heldur rúmt. Ég þáði að sjálfsögðu að hann tæki einn hlekk úr því og meðan ég klæddi mig í jakkann, græjaði hann það og afhenti mér svo úrið sem var allt annað og betra eftir. Og að sjálfsögðu var ekki rukkað fyrir þá þjónustu.
Þarna fann ég sem sagt þrívegis fyrir því sama daginn hvað þjónustuaðilar í Vestmannaeyjum láta sér annt um þá sem komnir eru á efri aldur. Og fyrir það hlýtur maður að vera þakklátur. Nú veit ég ekki hvernig þessu er háttað í öðrum sveitarfélögum en eftir framkomu sem þessa sem og þá þjónustu sem við njótum hér, hlýtur maður að spyrja sjálfan sig hvort þetta sé bara ekki óskastaður þeirra sem komnir eru á efri ár.
Þá er vert að geta þess sem ég hef orðið vitni að síðustu tvo mánuði, hve vel er hugsað um eldra fólkið okkar á Hraunbúðum. Þar er fólk sem vinnur vel sitt starf.
Sigurgeir Jónsson
Gvendarhúsi
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst