Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi tilkynnti á fundi í Salnum í Kópavogi í dag að hún bjóði sig fram til formennsku í flokknum á landsfundi sem fer fram 28. febrúar til 2. mars. Hún mun því taka slaginn við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttir þingmann sem hafði áður tilkynnt framboð.
Fjölmennt var á fundinum og þakkaði Guðrún viðstöddum fyrir að mæta, sérstaklega þeim sem væru komnir langt að. Guðrún sagðist hafa fengið fjölda áskorana um að bjóða sig fram og hafi rætt við fjölda fólks sem hefði lýst yfir eindregngum vilja sínum til þess að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ná auknum styrk á ný og verða kjölfesta í íslenskum stjórnmálum.
Hún sagði flokkinn í vanda staddan og væri komin úr bílstjórasætinu í aftursætið í stjórnmálunum. Þessu ætluðu flokksmenn að breyta og því væri efnt til þessa fundar. Lykillinn að því væri að gera flokkinn aftur að breiðfylkingu borgaralegra afla með því að sækja í grunngildi flokksins.
„Við fengum fyrr í vetur verstu kosninganiðurstöðu í sögu flokksins. Við erum ekki lengur í ríkisstjórn og að sumu leyti erum við komin úr bílstjórasætinu í aftursætið í íslenskum stjórnmálum. Þessu viljum við breyta. Þessu ætlum við að breyta,“ sagði Guðrún, en tók þó sérstaklega fram að hún væri ekki að varpa rýrð á neinn, allra síst Bjarna Benediktsson, fráfarandi formann.
Guðrún fór um víðan völl í ræðu sinni en í lokin sagði hún frá því að á mánudaginn muni hún hefja ferð sína í kringum landið til þess að ræða við sjálfstæðismenn og skoraði hún á flokksmenn til þess að taka virkan þátt í málefnastarfi flokksins í aðdraganda landsfundar. Horfa má á upptöku frá fundinum hér að neðan.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst