Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hefur sem kunnugt er boðið sig fram til að leiða flokkinn. Guðrún mætti á Sprengisand í gær og ræddi þar stjórnmálin, framboð sitt til formanns og stöðu Sjálfstæðisflokksins.
Áður en Guðrún tók sæti á þingi sat hún m.a. í stjórnum lífeyrissjóða. Fyrst í stjórn lífeyrissjóðsins Festu 2012–2014. Svo formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna 2016–2019. Í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða 2017–2021. Formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða 2018–2021. Varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna 2019–2021. Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna 2021.
Af þessu má sjá að Guðrún hefur mikla reynslu af stjórnun lífeyrissjóða. Í máli hennar á Sprengisandi kom fram að hún hafi tekið þátt í því að fjárfesta fyrir fé íslensk almennings í innviðum í öðrum löndum.
,,Ég tók þátt í því að byggja brýr, að byggja vegi, að byggja hafnir í Kanada og Hollandi og Belgíu og Guð veit hvar. Mér sveið það. Mér sveið það að við skyldum ekki einhvern veginn leita leiða til þess að nýta fé íslensk almennings til þess að byggja upp innviði í íslensku samfélagi sem að yrði til verðmætasköpunar og aukinnar hagsældar hér á landi.” sagði Guðrún og hélt áfram.
,,Þess vegna lagði ég það einu sinni til í ræðu að hvort að við gætum hugsað okkur að skoða þann möguleika að það færi einhver hluti af eignarhaldi Landsvirkjunar eingöngu í eignarhald lífeyrissjóðanna í ákveðinn tíma og við gætum þá tappað út eigið fé af Landsvirkjun og byggt hér. Farið í stórátak í samgöngum, stórátak í heilbrigðismálum, stórátak í að tryggja betur flutningsgetu á raforku. Allt eru þetta mál sem skipta almenning á Íslandi gríðarlega miklu máli.
Mér þótti miður að þeirri umræðu var í rauninni sendiboðinn skotinn. Í stað þess að við gætum tekið hér vitiborna umræðu um hvort þetta væri gerlegt og hvort þetta væri hægt. Vegna þess að ég held að almenningur gæti alveg hugsað sér að eiga hér mikilvæga innviði í gegnum lífeyrissjóðina sína. Vegna þess að almenningur á lífeyrissjóðina. Almenningur á t.d. 50% í HS Orku. Ég hefði gjarnan viljað sjá lífeyrissjóðina eignast HS Orku að fullu. Og almenningur á Íslandi ætti þá þetta mikilvæga fyrirtæki í gegnum eignarhald sitt, í gegnum lífeyrissjóðina, í gegnum sparnað sinn,” sagði hún.
Þessar hugmyndir Guðrúnar eru í anda þess sem Páll Scheving sendi inn í samráðsgátt og fjallað var um hér á Eyjafréttum ekki alls fyrir löngu. Þær gengu út á að leita samstarfs við lífeyrissjóði landsmanna til fjármögnunar á nauðsynlegri uppbyggingu og rekstri samgangna í landinu. Fjárfestingin og rekstur skilaði sér svo í veggjöldum til lífeyrissjóðanna.
Páll segir í samtali við Eyjafréttir að hann hafi heyrt viðtalið við Guðrúnu og sé henni sammála um að rétt sé að nýta lífeyrissjóðina til uppbyggingar innviða í landinu, eins og hann hefur bent á.
,,Það er í raun ótrúlegt að heimilt sé að nýta fé almennings í landinu til uppbyggingar innviða erlendis en ekki á heimaslóð. Það er mikilvægt að fara vel yfir þetta mál og opna leiðir til að nýta fjármagn sjóðanna á sem bestan hátt í þágu eigenda þeirra. Til dæmis birtist okkur slæm staða samgangna á Íslandi í fjölmiðlum nánast á degi hverjum og ríkissjóður virðist ekki hafa burði til að takast á við verkefnið. Því er nauðsynlegt fyrir ráðamenn þessa lands að fara að hugsa út fyrir boxið og nýta þessa leið. Því fyrr því betra,” segir Páll.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst