Lögreglan hefur fellt niður rannsókn á máli skipverja Hugins VE vegna skemmdar á vatnsleiðslu og ljósleiðarastreng í innsiglingunni til Eyja í nóvember 2023. Hættuástand almannavarna varð í Vestmannaeyjum við skemmdirnar. Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins.
Þrír skipverjar á Hugin, skipstjóri, yfirstýrimaður og yfirvélstjóri fengu réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins og samdi útgerðin um starfslok skipstjóra og stýrimanns. Fram kemur í fréttinni að lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hafi lokið rannsókn á þætti skipverjanna þriggja.
Haft er eftir Jóhanni Péturssyni, lögmanni yfirstýrimanns skipsins að niðurstaðan sé sú að lögreglan hafi fellt málið niður og taldi ekki að um refsiverða háttsemi væri að ræða af hálfu umbjóðanda hans eða annarra í þessu máli.
Spurður hvort allir þrír skipverjarnir lausir allra mála hvað þetta varðar, svarar Jóhann því játandi. „Að því að ég best veit þá var málið fellt niður og ekki talið að um refsiverða háttsemi væri að ræða.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst