Bæjarráð ræddi stöðu yfirfærslu Hraunbúða frá Vestmannaeyjabæ til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á fundi sínum í gær. Samkvæmt fundi með heilbrigðisráðuneytinu og bréfi dags. 3. mars sl., sem Vestmannaeyjabær svaraði þann 5. mars sl., og bréfi heilbrigðisráðuneytisins dags. 10. mars sl., ber Vestmannaeyjabæ að segja upp öllu starfsfólki Hraunbúða áður en til yfirfærslunnar kemur og vísar ráðuneytið til þess að lög um réttarstöðu starfsfólks við aðilaskipti að fyrirtækjum eigi ekki við þegar verið er að flytja starfsemi milli stjórnsýslustiga. Þessum skilningi heilbrigðisráðuneytisins hafnar Vestmannaeyjabær og bendir á að lögin hafi verið látin gilda þegar starfsemi er flutt frá ríki til sveitarfélaga. Með lögunum er ráðningarsambandi og réttindi starfsfólks tryggð. Lögin eru látin gilda um yfirfærslu hjúkrunarheimila á Akureyri og Hornafirði, en ekki í Vestmannaeyjum og í Fjarðabyggð.
Vestmannaeyjabær hefur frá upphafi þessa máls haft að leiðarljósi að starfsemi Hraunbúða og starfsfólk stofnunarinnar færðist hnökralaust yfir til nýs rekstraraðila. Nú er ljóst að heilbrigðisráðuneytið muni ekki leggja sitt af mörkum til þess að svo geti orðið.
Í ljósi þessa leggur bæjarstjóri til við bæjarráð að ráðið veiti bæjarstjóra og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs heimild til þess að óska eftir við Sjúkratryggingar Íslands að fresta uppsögn á samningi um rekstur Hraunbúða um einn mánuð til 1. maí 2021, til þess að tryggja hnökralausa yfirfærslu með hagsmuni starfsfólks og heimilisfólks að leiðarljósi, en aðeins 20 dagar eru þar til núgildandi samningur rennur út og Heilbrigðisstofnun Suðurlands tekur við rekstri stofnunarinnar.
Jafnframt ræddi bæjarráð drög að fréttatilkynningu um stöðuna sem heilbrigðisráðuneytið er búið að koma Vestmannaeyjabæ í með afstöðu sinni til réttarstöðu starfsfólks. Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum og í Fjarðabyggð hafa verið og verða áfram í samvinnu um viðbrögð og aðgerðir.
Neydd til uppsagna
Vestmannaeyjabær getur ekki unað því að heilbrigðisráðuneytið neyði sveitarfélagið til þess að segja upp starfsfólki á Hraunbúðum, þegar aðrar leiðir eru færar og stuðla þannig að hópuppsögnum á landsbyggðinni, á kvennavinnustöðum sem annast umönnun okkar viðkvæmustu einstaklinga. Með þessu er sköpuð óþarfa óvissa um störf, réttindi starfsfólks og þjónustu við heimilisfólk. Hægt er að beita lögum um réttindi starfsfólks við aðilaskipti að fyrirtækjum og tryggja þannig störf og réttarstöðu starfsfólks. Þau lög hafa verið látin gilda þegar starfsemi er flutt frá ríki til sveitarfélaga.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir því við formann velferðarnefndar Alþingis, úr því að heilbrigðisráðherra hyggst ekki beita sér, að málið verði tekið fyrir í nefndinni og að nefndin geri nauðsynlegar ráðstafanir til þess að umrædd lög geti gilt um réttarstöðu starfsfólks Hraunbúða við yfirfærsluna.
Vilja fresta uppsögn
Jafnframt felur bæjarráð bæjarstjóra að óska eftir því við Sjúkratryggingar Íslands að uppsögn á samningi um rekstur Hraunbúða verði frestað til 1. maí 2021, til þess að tryggja að yfirfærslan verði fagleg, réttindi starfsfólks tryggð og þjónustan skerðist ekki.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst