Á fundi fræðsluráðs á mánudaginn sl. var annars vegar rætt um breytingar á reglum um heimgreiðslur og hins vegar heildarendurskoðun á gjaldskrá og reglum leikskóla.
Á 374. fundi samþykkti meirihluti fræðsluráðs að hækka heimgreiðslur úr 110.000 kr. í allt að 220.000 kr. á mánuði við upphaf næsta fjárhagsárs og var skólaskrifstofu falið að endurskoða reglur með tilliti til breyttra forsendna. Endurskoðaðar reglur um heimgreiðslur með frekari útfærslu voru lagðar fram.
Á sama fundi óskaði fræðsluráð Vestmannaeyja eftir endurskoðun á gjaldtöku í leikskóla miðað við aldursviðmið og mismunandi kostnað aldurshópa. Jafnframt samþykkti ráðið enn frekar í 7. máli 376. fundar að farið yrði í heildarendurskoðun á gjaldtöku og reglum leikskóla skv. beiðni skólaskrifstofu.
Framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs fór yfir vinnuskjal með tillögum að breytingum á gjaldtöku fyrir ákveðna aldurshópa. Jafnframt fór hann yfir tillögur að breytingum á innritunar- og innheimtureglum.
Niðurstaða
Endurskoðaðar reglur um heimgreiðslur og þær útfærslur sem þar koma fram voru samþykktar með þremur atkvæðum meirihluta E og H lista gegn tveimur atkvæðum minnihluta D lista.
Bókun fulltrúa D lista:
Undirritaðar hafa efasemdir um hugmyndir og útfærslu fulltrúa meirihlutans um hækkun og tekjutengingu heimgreiðslna. Með því fyrirkomulagi mun hópur foreldra eiga rétt á minni og jafnvel engum heimgreiðslum ólíkt því sem er í dag á meðan annar hópur mun eiga rétt á umtalsvert hærri heimgreiðslum. Þannig vinnur ákvörðunin gegn upphaflegum markmiðum heimgreiðslna að hvetja alla þá foreldra sem hafa möguleika á að dvelja lengur heima með ungabörnum sínum og draga úr eftirspurn eftir leikskólavist fyrir yngstu börnin. Undirritaðar telja að aðgerðin muni að öllum líkindum kosta sveitarfélagið meira þegar upp er staðið og ekki ná markmiðum sínum. Að öðru leyti vísum við í fyrri bókun um málið frá 374. fundi fræðsluráðs.
Bókun fulltrúa E og H lista:
Hækkun heimgreiðslna er aðgerð til þess að tryggja val um úrræði fyrir börn og foreldra að loknu fæðingarorlofi. Tölulegar upplýsingar liggja fyrir um aukna þörf á nýjum leikskólaplássum á næstu tveimur árum. Þessi útfærsla á hækkun heimgreiðslna er tímabundin aðgerð í eitt ár. Markmiðið er að koma til móts við foreldra og um leið að kanna hvort greiðslurnar stuðli að ákveðnu jafnvægi þegar kemur að eftirspurn eftir leikskólaplássum. Það er mikilvægt að heimgreiðslur séu raunverulegt val fyrir foreldra sem hafa þess kost að vera lengur heima með ungum börnum sínum, tekjutenging er þar mikilvæg til að stuðla að því að fleiri hafi þetta val. Það er fjárhagslega hagkvæmt fyrir sveitarfélagið að fara blandaða leið, þ.e. með heimgreiðslum og fjölgun leikskólaplássa. Gert er ráð fyrir að kostnaður verði svipaður og hann er nú við þessa nýju nálgun við heimgreiðslur, samkvæmt áætlunum skólaskrifstofu. Ekki er hægt að segja til um hvort að þetta úrræði mun ná þeim markmiðum sem því er ætlað, nema með því að láta á það reyna í eitt ár og endurmeta stöðuna að því loknu.
Bókun fulltrúa D lista:
Tilgangur heimgreiðslna hlýtur að vera að reyna að draga úr eftirspurn eftir leikskólaplássum hjá börnum allra foreldra en ekki bara hinna tekjulægri. Með tekjutengingu er því fyrst og fremst verið að hvetja þá tekjulægri til að fresta leikskólagöngu ungra barna sinna. Það teljum við umhugsunarvert og ganga gegn upphaflegum tilgangi heimgreiðslna.
Málinu er þá vísað til bæjarráðs til frekari afgreiðslu.
Fundargerð. |