Heimir Hallgrímsson, þjálfari knattspyrnuliðs ÍBV, stýrir liði sínu ekki í upphafi deildabikarsins. Eyjamenn mæta Leikni R. í fyrsta leik sínum í mótinu annað kvöld en þá verður aðstoðarþjálfarinn Dragan Kazic við stjórnvölinn. Heimir flaug nefnilega í gær til Bandaríkjanna en hann mun næstu daga dvelja hjá Teiti Þórðarsyni og liði hans, Vancouver Whitecaps, í æfingabúðum í Arizona.