Herjólfur var sjósettur í dag, mánudag en unnið hefur verið að endurbótum á ferjunni síðustu tvær vikur eða svo í skipasmíðastöð í Landskrona, Svíþjóð. Meðal annars var komið fyrir þili á bíladekki, hálfgerðri vængjahurð til að uppfylla evrópureglur um farþegaferjur. Auk þess er stefni skipsins rúnað, slingubretti á síðunum framlengd um sex metra auk hefðbundinnar viðhaldsvinnu. Áætlunin var að sjósetja skipið að nýju í dag og hafa því áætlanir gengið fullkomnlega eftir. Siglingin út tók rúma þrjá sólarhringa og ef brottför verður í kvöld, ætti skipið að vera komið til Eyja í lok vikunnar. Breiðafjarðarferjan Baldur hefur leyst Herjólf af hólmi en Baldur hefur reynst vel á siglingaleiðinni milli Eyja og Landeyjahafnar.