Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði 45 tonnum í Vestmannaeyjum í gær að loknum stuttum túr. Helmingur aflans var þorskur en síðan var töluvert af ýsu og ufsa í aflanum. Egill Guðni Guðnason skipstjóri sagði í samtali við vefsíðu Síldarvinnslunnar að þetta hafi verið erfiður túr.
„Þetta var einungis tveggja sólarhringa túr en hann var erfiður, veðrið var hreint út sagt arfavitlaust. Um tíma var ekkert hægt að gera og enginn svefnfriður í skipinu þannig að við tókum bara pásu – fórum í land og stoppuðum þar til að hvíla okkur á djöflaganginum. Við vorum að veiðum við Eyjar þannig að það var stutt að fara og í landi stoppuðum við í 10 tíma. Þegar hægt var að veiða aflaðist vel og ekki hægt að kvarta undan neinu í þeim efnum. Veðrið hefur verið skelfilega leiðinlegt að undanförnu og síðustu átta sólarhringana höfum við legið í landi í þrjá vegna veðurs. Nú hlýtur þetta að fara að lagast og mikið ósköp verður maður feginn þegar það gerist,” sagði Egill Guðni. Vestmannaey hélt á ný til veiða í gærkvöldi, segir ennfremur í fréttinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst