Það lítur út fyrir ágætis veður og hægviðri yfir Þjóðhátíð um helgina ef marka má fjóra helstu veðurspár- og veðurfréttavefi sem Íslendingar eru duglegir að grípa í.
Veðurspár fyrir klukkan 21:00 á föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöldið inn á síðu Veðurstofu Íslands, Belgingi, Bliku og norsku síðunni Yr.no voru bornar saman.
Samkvæmt Veðurstofu Íslands má búast við mildri suðlægri átt og 11 stiga hita þegar dagskráin byrjar í kvöld með Unu Torfa sem stígur á stokk klukkan níu. Þá verður alskýjað en ekki virðist sem þurfi að hafa áhyggjur af úrkomu.
Veðurspá Bliku svipar til þeirra frá Veðurstofu Íslands en þar er talað um 3 m/s og 12 stiga hita. Þá á jafnvel eftir að glitta í smá sól á bak við skýin.
Belgingur er í sama pakka fyrir kvöldið.
Það halda margir upp á norsku spánna Yr.no sem er að vinna með svipaðar tölur og þær íslensku fyrir kvöldið. „Svak vind fra sørvest” er hægt að þýða yfir á íslensku sem „hæg suð-vestan átt”.
Það bætir aðeins í vindinn á laugardaginn og spáir Veðurstofa Íslands suð-austan átt og 9 m/s. Eitthvað á eftir að sjást til sólar fyrr um daginn en eftir klukkan níu má búast við lítils háttar rigningu.
Það er þó engin rigning í kortunum hjá Bliku.
Belgingur spáir því að skýjað verði allan daginn með smá úrkomu fyrir miðnætti og fram að morgni.
Þá er bara að vona að sú norska og Blika hafi rétt fyrir sér.
Veðurstofa Íslands spáir þó nokkurri rigningu á lokadegi hátíðarinnar. Klukkan níu um kvöldið sé hún þó lítils háttar og létta á til eftir miðnætti.
Blika spáir því að það verði skýjað en þó engin rigning um kvöldið.
Þá er Belgingur nokkuð sammála Bliku.
Yr.no spáir úrkomu þar til klukkan átta um kvöldið en annars verður nokkuð milt í veðri.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst