Hverjir tónleikar hafa sinn sjarma
23. janúar, 2024
DSC_1778
Æft fyrir tónleikana. Eyjar.net/Óskar Pétur Friðriksson

Í dag eru nákvæmlega 51 ár liðin frá einum stærsta viðburði í lýðveldissögunni, eldgosinu á Heimaey. Af því tilefni er blásið til Eyjatónleika í Hörpu. Hafa slíkir tónleikar verið haldnir allt frá árinu 2011 og áfram skal haldið.

Eyjafólk og vinir þeirra koma saman og halda alvöru söng- og gleðihátíð á miðjum vetri. Rifjuð verða upp mörg af bestu lögunum sem við kennum við Eyjar. Auðvitað eru þjóðhátíðarlögin þar fyrirferðarmest, bæði þau gömlu og þau nýju, sem mörg hver eru með vinsælustu dægurlögum okkar Íslendinga síðustu ár. Fjöldi listafólks kemur fram ásamt stórhljómsveit undir stjórn Þóris Úlfarssonar.

Langlíf tónleikaröð

Að sögn Bjarna Ólafs Guðmundssonar, gengur undirbúningur tónleikanna vel.

,,Vestmannaeyjakórarnir ásamt hljómsveitinni Molda æfðu saman um helgina, en kórarnir hafa æft undanfarnar vikur. Þá eru æfingar stórhljómsveitar og söngvara að hefjast nú í vikunni.” segir Bjarni og bætir við að því miður sé Bjartmar Guðlaugsson forfallaður vegna veikinda. „En að sjálfsögðu gerum við honum góð skil. Þetta eru þrettándu Eyjatónleikarnir í Hörpu, sennilega langlífasta tónleikaröðin í Hörpu fyrir utan hefðbundna tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands.”

Bjarni Ólafur, eða Daddi eins og hann er ávallt kallaður segir að vel yfir 150 lög hafi verið flutt á tónleikunum og sennilega vel yfir 15.000 manns sótt tónleikana á þessum rúma áratug.

,,Við Guðrún erum auðvitað í skýjunum yfir viðtökunum en hvað við gerum í framtíðinni er enn óráðið.” segir Daddi en hann ásamt Guðrúnu Mary Ólafsdóttur, konu hans hafa haft veg og vanda að skipulagningu tónleikaraðarinnar.

Aldrei hafa fleiri listamenn komið fram á einum Eyjatónleikum

Í ár eru það bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór, Ragga Gísla, Salka Sól, Emmsjé Gauti, Védís Hervör, Þórarinn Óla og Albert Tórshamar sem koma fram, ásamt Karla- og Kvennakórum Vestmannaeyja (en Bjartmar forfallast) og ekki má gleyma hljómsveitinni Molda.

,,Það er mikil tilhlökkun og tónleikarnir verða að okkar mati nokkuð ólíkir flestum þeim fyrri, enda er það svo að hverjir tónleikar hafa haft sín einkenni og sinn sjarma og hafa verið nokkuð ólíkir. Þótt okkur finnist þessir skera sig jafnvel meira úr en aðrir.” segir Daddi.

Miðasala er á fullu inn á harpa.is og tix.is og í miðasölu Hörpu í síma 528-5050. Óskar Pétur Friðriksson leit við á æfingu í Eyjum um helgina og má sjá fleiri myndir frá honum hér að neðan.

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst