„Það voru bjartsýnir Eyjamenn sem horfðu fram á veginn við áramót 1972 til 1973. Sjórinn hafði þá verið gjafmildur og einnig kaupendur fisksins. Í nýrri og enn stærri landhelgi, þá nýstækkaðri úr 12 sjómílum í 50, höfðu Vestmanneyingar veitt vel. Árið 1972 áttu Vestmanneyingar 8,4% af útflutningsverðmæti landsmanna. Nóg atvinna var í plássinu og íbúarnir aldrei verið fleiri, eða 5273 þann 1. des. 1972. Þetta bjartsýna fólk fór því að sofa áhyggjulaust að kvöldi mánudags 22. janúar 1973,“ segir á Heimaslóð um aðdraganda Heimaeyjargossins sem hófst á þessu degi fyrir 53 árum, aðfaranótt 23. janúar 1973.
Heimaey var rýmd um nóttina sem var upphafið að miklum erfiðleikum Eyjafólks því þó móttökur væru einstakar á fastalandinu var erfiðleikum bundið að finna húsnæði fyrir rúmlega 5000 manns. Eyjaflotinn og fleiri skip fluttu fólkið upp á land og er það stærsta björgun í Íslandssögunni. Gosið var blásið af þann 3. júlí sama ár en áður voru Eyjamenn farnir að tínast heim og hjólin fóru að snúast eitt af öðru.
Aðkoman var ekki glæsileg, kolsvartur vikur yfir öllu og afleiðingar gossins blöstu hvarvetna við. En hreinsun hófst áður en gosi lauk og var það upphafið að endurreisn bæjarins sem í þess fyllstu merkingu reis úr öskunni og skilaði okkur því bæjarfélagi sem við þekkjum í dag og er í fremstu röð á Íslandi.
Áhugaverð sýning
Upphaf gossins er minnst með látlausum hætti en goslokum fagnað af því meiri krafti. Rétt er að minna á sýninguna Geological Rhapsody sem verður opnuð kl. 17.00 í dag, föstudag. Hún hefur það markmið að kanna hvernig jarðfræðileg virkni mótar mannlega sýn, hegðun og hugmyndir um vistfræðilega sambúð, út frá listrænum sjónarhornum íslenskra og japanskra listamanna. Þótt Ísland og Japan séu í það bil 8.600 km fjarlægð, deila þau áhugaverðum menningarlegum líkindum, svo sem nánum tengslum við náttúruöflin og animískar heimsmyndir.

Minningar um gos í Eldheimum í kvöld
Í kvöld, föstudaginn 23. janúar verður opið hús í Eldheimum frá kl. 20:00 en dagskráin hefst kl. 20:30.
„Söngvar verða sungnir og sögur sagðar frá gosinu. Hittumst, eigum saman samverustund og spjöllum saman,“ segir í fréttatilkynningu. .
Um tónlist sjá Hrafnhildur Helgadóttir, Júlíanna S. Andersen, Helga Jónsdóttir, Arnór Hermannsson, Unnur Ólafsdóttir, Sigurmundur G. Einarsson, Birgir Nielsen, Magnús R. Einarsson og Þórir Ólafsson. Sögumenn munu koma fram og ef til vill leynigestur.