Kvennalið ÍBV vann stórsigur á ÍR, í upphafsleik 11. umferðar Olís deild kvenna, í Eyjum í dag. Leikurinn var í járnum framan af og var staðan jöfn, 11:11 eftir 20 mínútur. Eyjakonur skoruðu fjögur mörk í röð á stuttum kafla og komust í 15:11. Eyjakonur leiddu með sjö mörkum í hálfleik, 20:13.
Eyjakonur voru með mikla yfirburði í síðari hálfleik á öllum sviðum og áttu ÍR konur áttu fá svör við leik ÍBV. Þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum voru Eyjakonur komnar með tíu marka forystu, 30:20. Þær unnu að lokum öruggan tólf marka sigur, 36:24. Með sigrinum er ÍBV á toppi deildarinnar með 18 stig. ÍR er í 3. sæti með 14 stig. Valskonur eru í 2. sæti með 16 stig en eiga leik til góða.
Birna Berg Haraldsdóttir átti stórleik í liði ÍBV og var markahæst með 11 mörk. Amalia Frøland varði 11 skot í marki ÍBV og Ólöf Maren Bjarnadóttir 2.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 11 mörk, Sandra Erlingsdóttir 9, Amelía Dís Einarsdóttir 5, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 4, Birna Dögg Egilsdóttir 2, Birna María Unnarsdóttir 2, Ásdís Halla Hjarðar 1, Ásta Björt Júlíusdóttir 1, Britney Emilie Florianne Cots 1.
ÍBV tekur á móti Haukum laugardaginn 10. janúar kl. 14:00, þegar deildin fer aftur af stað á nýju ári.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst