Já!  
Landakirkja

Við stöndum oft frammi fyrir afdrifaríkum ákvörðunum í lífinu.
Ákvörðunum sem hafa áhrif á hvað við gerum, hvar við verðum og ekki síst
hver við verðum eða hvernig. Hvernig tengsl við ætlum að hafa við
skurðpunkta tengslanets okkar, hvort sem það snýr að okkur sjálfum eða
öðrum, og hvernig við viljum viðhalda þeim eða styrkja. Margt í lífinu
hefur áhrif á tilveru okkar og sjálf höfum við margt um það að segja.

Oft þarf ekki mörg orð eða rökstuðning við stóru ákvarðanir lífsins.
Eitt „já“ getur sagt meira en hinar bestu doktorsritgerðir og hið sama
gildir um eitt „nei.“ Stuttar ræður eða einfalt látbragð geta verið
áhrifaríkari og beinskeyttari en hinar mestu þrumuræður og doðrantar.

Í sjálfri fermingarathöfninni er „já-ið“ hið eina sem fermingarbörnin
segja fyrir utan minnisversið. Um leið er fermingarathöfnin að vissu
leyti ein af vígsluathöfnum kirkjunnar. Vígsluþeginn, þ.e.a.s.
fermingarbarnið, svarar því játandi að það vilji hafa Jesú Krist að
leiðtoga lífsins. Það játar opinberlega vilja sinn til að feta veg
ljóssins með Guð og boðskap hans sem kyndil á vegferð sinni. Það er
afdrifarík ákvörðun. Ákvörðun sem gerð er opinber með einu já-i en segir
þó meira en þúsund orð.

Að reiða sig alfarið á sjálfan sig getur reynst manni ofviða og þrautin
þyngri þegar öldur erfiðleikanna skella með öllum sínum þung á strönd
lífsins. Lífið er vissulega dásamleg gjöf en það getur líka verið erfitt
eins og við vitum öll. Gamli frönskukennarinn minn í menntaskóla sagði
við nemendur sína þegar okkur þótti eitthvað erfitt í náminu: „Hver
sagði að lífið ætti að vera auðvelt? Ekki ég alla vegna!“ Og hún hefur
margt til síns máls.

Því er okkur hentugt og gjöfult að hafa kyndilinn í myrkrinu svo maður
sjálfur geti verið ljós í myrkrinu. Ekki bara fyrir sjálfan sig heldur
einnig þá sem dvelja í landi náttmyrkranna. Það er að vera kristin
manneskja og það felur í sér hreint og tært já sem við getum öll gert að
okkar eigin.

Viðar Stefánsson
Prestur í Landakirkju,

 

 

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst

X