ÍBV og Selfoss áttust við í lokaleik 19. umferðar Olísdeildar kvenna í dag. Það blés ekki byrlega fyrir ÍBV í fyrri hálfleik. Gestirnir komust í 15-7 en ÍBV náði að minnka muninn fyrir leikhlé. Staðan í hálfleik 17-14 fyrir Selfoss.
Mikill darraðadans var svo í lok leiks en ÍBV náði að komast yfir en Selfoss var aldrei langt undan. á lokasekúndunum fengu gestirnir svo vítakast í stöðunni 27-27. Marta Wawrzykowska gerði sér lítið fyrir og varði vítakast Huldu Dísar Þrastardóttur og skiptu liðin því stigunum sem í boði voru.
Í gærkvöldi sigraði svo botnlið Gróttu lið Stjörnunnar og hleypti með því auknu lífi í fallbaráttuna. Sem stendur nú þannig að Grótta er enn á botninum með 8 stig. ÍBV og Stjarnan eru þar fyrir ofan með 10 stig þegar tvær umferðir eru eftir.
Markahæstar hjá ÍBV í dag voru þær Sunna Jónsdóttir með 7 mörk, Birna Berg Haraldsdóttir skoraði 6 og Dagbjört Ýr Ólafsdóttir gerði 5. Marta Wawrzykowska varði 9 skot.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst