
Rúmlega 30 manns mættu á kynningarfund sem Eyjagöng ehf. stóð fyrir á Hvolsvelli í gærkvöld, þrátt fyrir að íslenska karlalandsliðið í handbolta ætti leik á Evrópumótinu á sama tíma. Fundurinn þótti ótrúlega vel sóttur í ljósi þeirrar samkeppni.
Kynningin var í megindráttum sambærileg þeirri sem haldin var í Vestmannaeyjum fyrr í mánuðinum, þar sem yfir 400 manns sóttu fund. Líkt og þar komust þó ekki allir til Hvolsvallar vegna samgangna, meðal annars Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, sem forfallaðist af svipuðum ástæðum.
Árni Sigfússon, stjórnarformaður Eyjaganga, stýrði fundinum og bauð fundargesti velkomna. Haraldur Pálsson kynnti verkefnið ítarlega og fór meðal annars yfir tímalínu þess, sem vakti talsverða athygli fundarmanna. Ingunn Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sunnlenskra sveitarfélaga og stjórnarmeðlimur, var meðal fundargesta en hún, líkt og margir aðrir, komst ekki á fundinn í Vestmannaeyjum.
Í samtali við Eyjafréttir í dag sagði Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings Eystra að fundurinn hefði farið afar vel fram og verið ótrúlega vel sóttur miðað við að landsleikur Íslands hefði farið fram á sama tíma. Hann sagði verkefnið hafa verið kynnt á skýran og faglegan hátt og lagði áherslu á hina miklu hagsmuni sem Eyjagöng gætu haft fyrir Rangárþing Eystra, Suðurland í heild og Vestmannaeyjar.
„Suðurlandsundirlendið yrði eitt öflugt atvinnusóknarsvæði, þar sem stoðir væru meðal þeirra sterkustu á landinu þegar horft er til landbúnaðar, sjávarútvegs, fiskeldis og ferðaþjónustu. Verði af þessum göngum eru tækifærin til frekari uppbyggingar einfaldlega óþrjótandi,“ sagði Anton Kári. Hann bætti við að fundarmenn hefðu verið duglegir að spyrja spurninga og að umræður hefðu verið málefnalegar og jákvæðar gagnvart verkefninu.
Athygli vakti einnig að Sandra Sigurðardóttir, varaformaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og þingmaður Viðreisnar í kjördæminu, sótti fundinn ein þingmanna. Í samtali við Eyjafréttir í dag sagði hún Eyjagöng vera eitt þeirra innviðaverkefna sem gætu skipt sköpum fyrir þróun og samkeppnishæfni Suðurlands.
„Kynningarfundurinn á Hvolsvelli sýndi að verkefnið er bæði metnaðarfullt og faglega unnið og sérstaklega ánægjulegt er að sjá hversu vel er staðið að undirbúningi og fjármögnun. Nú verður afar áhugavert að sjá niðurstöður jarðrannsókna, sem verða lykilskref í áframhaldandi vinnu,“ sagði Sandra.
Fundinum lauk með lófataki þegar Árni Sigfússon sleit fundi og tengdi í framhaldinu á lokamínútur landsleiksins, sem lauk með sigri Íslands – og enn einu lófataki í salnum.
Þessu tengt: Mikill áhugi á Eyjagöngum
