Í aðdraganda jóla höfum við rætt við nokkra íbúa Vestmannaeyja um hvernig þeir undirbúa hátíðarnar. Að þessu sinni fengum við að ræða við Óttar Steingrímsson, en hann deildi með okkur sínum uppáhalds jólahefðum og minningum.
Fjölskylda? Er giftur breiðhyltingnum Andreu Guðjóns Jónasdóttur. Saman eigum við þrjú börn, Ísold (9), Hinrik Daða (7) og Birni Berg (3).
Hvernig leggjast jólin í þig? Jólin leggjast afskaplega vel í mig, er mikil félagsvera og þ.a.l. mikið jólabarn þar sem jólin snúast um samverustundir með fjölskyldu og vinum.
Fer mikill undirbúningur í jólin hjá þér? Undirbúningurinn hefur lent meira á herðum Andreu þetta árið þar sem ég hef verið meira fjarverandi vegna vinnu heldur en seinustu ár. Enn maður reynir eftir fremsta megni.
Ertu með jólahefð? Já þær eru nokkrar og nokkuð hefðbundnar, skreytum alltaf jólatréið 17. desember, förum í Kirkjugarðinn á aðfangadag, hlustum á sömu jólaplötuna yfir jólamatnum og svo sú nýjasta er að fara í Jóla-smørrebrød á Þorláksmessu hjá Einsa Kalda sem mér þykir mjög vænt um.
Hvert er þitt uppáhalds jólalag? Það mun vera White Christmas með Bing Crosby.
Hvað er í matinn hjá þér á aðfangadag? Það er svínahamborgarahryggur.
Hvað stendur upp úr á jólunum? Það er nú iðulega gleðin og tilhlökkunin sem skín úr augum barnanna á þessum tíma.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst