Á síðasta fundi bæjarráðs var umfjöllun um bréf frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál er varðar kæru Vestmannaeyjabæjar til nefndarinnar vegna höfnunar umhverfis, orku- og loftlagsráðuneytis á afhendingu gagna. Umrædd gögn lágu til grundvallar hækkana á heitu vatni í Eyjum í september 2023 og janúar 2024.
Ráðuneytið benti á í svarbréfi að ákvörðun um synjun væri kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Nefndin vísaði málinu hins vegar frá þar sem Vestmannaeyjabær gat ekki sem stjórnvald kært til nefndarinnar á grundvelli upplýsingalaga. Í úrskurðarorðum nefndarinnar segir að kæru Vestmannaeyjabæjar sé vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Í niðurstöðu bæjarráðs segir að það sé sérstakt að umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið, sem á að leiðbeina um kæruleið í máli sem þessu, skuli ekki gefa réttar leiðbeiningar eftir því sem fram kemur í svarbréfi nefndarinnar. Leitað verður annarra leiða til að óska eftir aðgangi að umræddum gögnum.
Þess má geta að Eyjafréttir/Eyjar.net kærðu sama mál til úrskurðanefndar og er niðurstöðu beðið frá nefndinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst