Samgöngur til Eyja hafa verið mikið í umræðunni í vetur vegna erfiðleika. Í fyrradag stóð til að haldinn yrði íbúafundur þar sem íbúar hefðu tækifæri til að spyrja innviðaráðherra og vegamálastjóra um aðgerðir til að bæta stöðuna og um framtíðarsýn á samgöngur fyrir Vestmannaeyjar. Ekki varð af fundinum þar sem innviðaráðherra komst ekki til Eyja. Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja, sem kom saman til fundar í gær.
Í fundargerðinni segir jafnframt að bæjarstjórn hafi átti fund með vegamálastjóra og forstöðumanni hafnarsviðs Vegagerðarinnar um stöðu Landeyjahafnar. Ráðið ræddi einnig svör Vegagerðarinnar við fyrirspurn frá síðasta fundi um það hvernig Björgun hefur staðist skilyrði útboðs um dýpkun Landeyjahafnar.
Bæjarráð harmar það að íbúafundurinn hafi ekki farið fram og leggur þunga áherslu á að hann verði haldinn sem fyrst.
Fram kemur í niðurlagi í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn að verktakinn ráði ekki við að dýpka við þær aðstæður líkt og eru núna þar sem dýpið í hafnarmynninu er ekki nema 3 metrar. Við þessu þarf Vegagerðin að bregðast eins fljótt og hægt er.
Á fundinum var lagt fram svar Vegagerðarinnar við fyrirspurn bæjaryfirvalda um dýpkun í Landeyjahöfn.
„Ekkert rif framan við ströndina“
Í svarinu segir m.a. að það magn sem þarf að fjarlægja eftir hvern storm er um 12.000 m3 sem telst ekki vera mikið magn. Vandamálið er hins vegar það að dýpkunarskipið þarf að sæta færis eftir sjávarföllum þegar svo grunnt er í höfninni. Einnig þarf að víkja 1 sinni til 2x sinnum fyrir Herjólfi á háflóði sem tefur enn afköst skipsins. Álfsnes er með afkastagetu upp á 15.000 m3/dag en þau fara niður í 1.500-2.000 m3/dag þegar svona grunnt er í höfninni. Afköst skipsins aukast fyrst þegar dýpi er orðið 5 m og ekki þarf að haga vinnu eftir flóði.
Ströndin vestan við Landeyjahöfn er í jafnvægi milli ára samkvæmt mælingum sem Vegagerðin hefur gert með reglulegu millibili. Ströndin rétt austan við Landeyjahöfn er ekki í jafnvægi og rétt við ós Markarfljóts er ekkert rif framan við ströndina þar sem mest allur sandflutningur langsum eftir ströndinni á sér stað. Í austan áttum beinist því mest allur sandflutningurinn á hafnarmynnið en ekki við rifið.
Markarfljótsós færst nær höfninni
Ljóst er að árin 2020-2022 náðist mjög góð nýting til Landeyjahafnar þó svo að öldulega séð hafi árin ekki verið þau bestu sem við höfum séð. Þá var viðvarandi suðvestan átt og sandflutningur til hafnarinnar lítill og í nokkurskonar jafnvægi. Þá var einnig Markarfljótsós í um 3 km fjarlægð frá Landeyjahöfn en er í dag í um 2 km fjarlægð.
Ef fjarlægð milli ós Markarfljóts og Landeyjahafnar verður festur í um 4 km fjarlægð er líklegt að höfnin verði ekki jafn viðkvæm fyrir þessum breytingum í veðrinu. Vegagerðin er að undirbúa frekari rannsóknir á byggingu mannvirkja á rifinu og einnig byggingu varnargarða til þess að hliðra ós Markarfljóts um 3 km. Sú framkvæmd er háð samningum við landeigendur og líklega umhverfismati, segir í svarinu.
Kröfur til verktaka
Þá segir að yfir vetrarmánuðina þurfi stöðuga viðhaldsdýpkun við Landeyjahöfn. Í útboðsgögnum eru gerðar kröfur til verktaka um við hvaða aðstæður skal vinna á hverju svæði, sjá mynd að neðan.
Í tæknikröfum útboðsins er gert ráð fyrir að afkastageta skipsins sé að minnsta kosti 15.000 m3/dag. Afkastagetan í hafnarmynni þarf að vera amk. 10.000 m3/dag þegar Hs=1,7m, öldulengd L=70m og dýpi = -5,0 m. Tekið er fram að þegar dýpi er undir –4,0 m skal verktaki vinna eftir sjávarföllum. Vinnutími getur þá verið 3-6 klukkustundir á sólarhring eftir aðstæðum. Einnig þarf skipið að víkja fyrir Herjólfi sem þarf líka að nýta sjávarfallagluggann.
Upplegg Vegagerðarinnar með útboðinu var að skipið gæti fjarlægt þetta efni á 1-2 dögum. Með því væri hægt að ná nýtingu hafnarinnar upp og sem sjaldnast væri felld niður ferð vegna dýpi. Verktakinn uppfyllir hámarksafköst skips, hefur nýtt alla veðurglugga til dýpkunar en hefur ekki náð að uppfylla afköst þegar mest á reynir, þ.e. þegar dýpi er takmarkað en veður gott.
Tengdar fréttir
https://eyjar.net/ofaer-til-siglinga-storan-hluta-vetrarins/
https://eyjar.net/fratafir-i-landeyjahofn/
https://eyjar.net/gerdu-athugasemdir-vid-afkost-daeluskips/
https://eyjar.net/619-milljonir-i-landeyjahofn-i-fyrra/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst