Hið árlega kótilettukvöld verður haldið fimmtudaginn 7. nóvember nk. í Höllinni, kl 19:30. Kótilettukvöldið hefur verið árlegur viðburður frá árinu 2014 og er tilgangur kvöldsins að koma saman, hafa gaman og borða kótilettur til styrktar góðs málefnis, en allur ágóði rennur beint til styrkar Krabbavarnar Vestmannaeyja og Hollvinasamtaka Hraunbúða. Við ræddum við Pétur Steingrímsson einn af forsprökkum kvöldsins og fengum að heyra hvar og hvernig hugmyndin að kvöldinu kviknaði.
,,Hugmyndin að kvöldinu kviknaði árið 2013 í Oddfellow, en þá hittust menn einu sinni í mánuði í Oddfellow til að borða og spjalla. Gunnar Heiðar Gunnarsson eða Gunni kokkur eins og hann er kallaður sá um að elda fyrir mannskapinn og bar fram eitt kvöldið kótilettur í raspi með öllu tilheyrandi. Við Gunni fórum í framhaldinu að spjalla um hvað okkur þætti þessi matur góður, enda höfðum við báðir mikinn áhuga á mat, hann að elda hann og ég að borða hann og út frá því kviknaði hugmyndin. Síðan þessi hefð byrjaði hafa safnast alls 4,9 milljónir sem runnið hafa í góð málefni, en Krabbavörn Vestmannaeyja hefur verið styrkt frá upphafi. Krabbamein er orðið ofboðslega algengt og það er svo mikilvægt að fólk sem gengur í gegnum það þurfi einungis að hafa áhyggjur af því, en ekki öðrum hlutum líka eins fjárhag og þar fram eftir götunum. Það þekkja flestir einhvern sem hefur gengið í gegnum krabbamein.”
Við hvetjum fólk til að kaupa miða í forsölu svo hægt sé að áætla fjölda í mat eftir bestu getu. Þetta er skemmtilegt og öðruvísi kvöld og verður Kótilettu hljómsveitin að sjálfsögðu á sínum stað.
Myndirnar eru frá Pétri Steingrímssyni og eru frá því í fyrra.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst