Kröfur fjármálaráðherra – ekki óbyggðanefndar
13. febrúar, 2024
DSC_3312
Páll Magnússon. Eyjar.net/ÓPF

Nú liggur það fyrir í viðtali á mbl.is í dag að fjármálaráðherra ætlar halda til streitu kröfu um að Vestmannaeyjabær afhendi ríkinu stóran hluta Heimaeyjar og allar úteyjarnar. Þessi kröfugerð varð ekki til hjá óbyggðanefnd, eins og ráðherrann gefur til kynna, heldur í fjármálaráðuneytinu undir forræði ráðherrans.

Ráðherrann gefur ekki mikið fyrir viðbrögð bæjarstjórnar Vestmannaeyja í gær:  „Þannig að þau sjónarmið sem þarna koma fram hafa komið fram hjá bændum… í meira en tuttugu ár“. Þetta lýsir nú ekki djúpum skilningi á málinu. Í fyrsta lagi deildu bændur aðallega við ríkið um eignarrétt á afréttum uppi á hálendi í óbyggðum Íslands. Þar er engu saman að jafna við 13 ferkílómetra þéttbýla eyju þar sem búa 4,600 manns. Krafa fjármálaráðherra nær m.a. yfir land þar sem núna standa yfir framkvæmdir upp á milljarðatugi í landeldi á laxi.

Í öðru lagi liggur fyrir þinglýstur eignarréttur Vestmannaeyjabæjar á öllu þessu landi. Ríkið seldi Vestmannaeyjabæ þetta land á grundvelli sérstakra laga þar um 1960. Undir afsalið af hálfu ríkisins rituðu Bjarni Benediktsson, eldri, þáverandi dómsmálaráðherra, og Ingólfur Jónsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, í águst 1960. Við þetta skapaðist stjórnarskrárvarinn eignarréttur Vestmannaeyjabæjar á þessu landi.

Fjármálaráðherra segir í viðtalinu á mbl: ‘’Ólíkir stjórnmálaflokkar hafa haft ólíkar skoðanir á því og kemur kannski ekki á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn hefur almennt verið eignarréttarmegin’’.

Einmitt. Þeim mun meira kemur það á óvart að varaformaður Sjálfstæðisflokksins skuli nú ætla að reka mál af hörku í því skyni að fá hnekkt þeim eignarrétti sem fyrrnefndir foringjar Sjálfstæðisflokksins afsöluðu Vestmannaeyjabæ 1960.

Annars má draga svör fjármálaráðherra saman í fjögur orð: Þetta er bara svona. Svör þáverandi forsætisráðherra, sem bæjarstjórn Vestmannaeyja vitnaði til í gær í sambandi við skattlagningu blaðburðarbarna, voru líka fjögur orð: Svona gerir maður ekki.

Fyrrtalda svarið gæti hafa komið frá skrifstofumanni í ráðuneyti – en hið síðartalda kom frá pólitískum leiðtoga. Þegar síðartalda svarið var gefið var fylgi Sjálfstæðisflokksins um 40%. Nú þegar fyrrtalda svarið er gefið er fylgi Sjálfstæðisflokksins um 17%. Kannski er eitthvað samhengi þarna á milli.

Þessi kröfugerð er að frumkvæði fjármálaráðherra og hennar ráðuneytis. Ekki óbyggðanefndar.  Ráðherrann ber ábyrgð á þessu máli. Ekki óbyggðanefnd. Það er á valdi ráðherrans að afturkalla þessar fáheyrðu kröfur – vonandi ber hún gæfu til þess.

 

Páll Magnússon

forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja

Tengdar fréttir

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst