Eyjafólkið Arnar Júlíusson og Dagbjört Lena Sigurðardóttir eru á fullu í vinnu við að undirbúa Eyjatónleikana í Hörpu laugardaginn 25. janúar nk. Þar eru þau á vegum Háskólans á Hólum og er liður í námi þeirra í viðburðarstjórnun.
„Við komum inn í verkefnið í nóvember á síðasta ári og er þetta hluti af verknámi sem við þurfum að taka í námi okkar í viðburðarstjórnun frá Háskólanum. Við erum því búin að aðstoða Dadda síðastliðna tvo mánuðina og erum ótrúlega heppin og þakklát fyrir það hvað hann er búinn að taka vel á móti okkur. Við fáum að fylgjast með öllu sem fer fram og að leggja hönd á plóg í þessu verkefni,“ segir Arnar.
Stórkostleg tónlistarveisla
„Eins og Arnar nefnir erum við að koma að tónleikunum í fyrsta skipti en höfum bæði mætt á Eyjatónleikana. Erum ótrúlega spennt og getum ekki beðið eftir að sjá afraksturinn á stóra kvöldinu. Undirbúningurinn er búinn að vera virkilega skemmtilegur og krefjandi en við höfum fulla trú á því að á næstu dögum munum við leggja lokahönd á stórkostlega tónlistarveislu sem sannir Eyjamenn mega ekki missa af,“ sagði Dagbjört Lena sem hlakkar til.
Þjóðhátíðarfiðringur
Arnar segir stemninguna ótrúlega góða, alla í hópnum rosalega hressa og jákvæða og allir alltaf til í allt. „Við vonum líka að stemningin og gleðin skili sér til allra áhorfenda því það er virkilega mikil vinna búin að fara í þetta. En við erum sammála um að stemningin er gríðarleg og maður er ekki frá því að það sé kominn smá þjóðhátíðarfiðringur í mannskapinn.“
Dagbjört Lena er með sérstök skilaboð til þeirra sem aldrei hafa komið á Eyjatónleika. „Við mælum með að þeir sem ekki eru búnir að næla sér í miða geri það sem allra fyrst á tix.is því þetta verður rosalegt „show“. Þetta er akkúrat það sem við Eyjamenn kunnum svo vel, að búa til góða skemmtun, gleði og gaman og þessir tónleikar eru alls ekkert síðri þegar kemur að því,“ segir Dagbjört Lena.
Myndir úr safni Óskars Péturs. Hjónin Kristín og Sæþór á Eyjatónleikum í Hörpu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst