Málefni Hraunbúða voru til umræðu á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. Bæjarstjóri fór yfir stöðu viðræðna við Sjúkratryggingar Íslands um yfirfærslu dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hraunbúða til ríkisins. Í ljósi þess hversu erfiðlega hefur gengið að fá upplýsingar og leiðbeiningar um yfirfrærsluna frá Sjúkratryggingum Íslands, ákvað bæjarráð að verða við tillögu bæjarstjóra á síðasta fundi sínum, um að leita til Heiðars Ásbergs Atlasonar lögmanns og meðeiganda Logos, lögmannsstofu, um ráðgjöf og umsjón. Vestmannaeyjabær, ásamt umræddum lögmanni, hefur fundað með forstjóra og öðrum fulltrúum Sjúkratrygginga Íslands um stöðu mála og framhaldið. Enn liggur ekki fyrir hver kemur til með að taka við rekstri stofnunarinnar og undirstrikaði Vestmannaeyjabær mikilvægi þess að Sjúkratryggingar Íslands fengju úr því skorið sem allra fyrst hjá heilbrigðisráðuneytinu hver sá aðili verði. Ákveðið hefur verið að funda aftur í næstu viku.
Bæjarstjórn tekur undir bókun bæjarráðs og skorar á heilbrigðisráðherra og Sjúkratryggingar Íslands að sinna sínu hlutverki og taka við þessu lögbundna verkefni ríkisins. Mikilvægt er að klára yfirfærsluna eins fljótt og auðið er.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst