„Nú í morgun gekk Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á minn fund og lagði fram tillögu um þingrof og í kjölfarið almennar kosningar til Alþingis í lok nóvember. Samkvæmt tillögu ráðherra situr ríkisstjórnin fram til kosninga. Fallist ég á tillögu forsætisráðherra um þingrof skal samkvæmt 24. greinar stjórnarskrár boða til kosninga áður en 45 dagar eru liðnir frá því tilkynnt er um þingrofið,“ segir í tilkynningu frá Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands rétt í þessu.
„Ég hef átt samtöl við forsætisráðherra síðustu daga og í gærkvöldi ræddi ég við formenn hinna stjórnmálaflokkanna sem eiga aðild að núverandi ríkisstjórn. Ég hyggst nú gefa mér tíma til að ræða einnig við formenn allra flokka sem sæti eiga á Alþingi. Að þeim fundum loknum mun ég leggja mat á stöðu mála áður en ég tek afstöðu til tillögunnar. Ég mun svo gera grein fyrir ákvörðun minni síðar í vikunni. Ég mun ekki taka spurningar í dag enda hef ég engu við þetta að bæta að sinni. Forseti á fundi með formönnum flokka í dag og tekur á móti þeim á skrifstofu forseta að Staðastað.“
Kristrún Frostadóttir kemur á fund forseta kl. 10.30, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kl. 11.15, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kl. 12.30, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kl. 16.45 og Inga Sæland kl. 16.00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst