Nú um helgina var haldið aftur til mælinga á stærð loðnustofnsins á uppsjávarveiðskipunum Ásgrími Halldórssyni SF og Polar Amaroq. Frá þessu er greint á vef Hafrannsóknastofnunnar Líkt og í fyrri mælingum eru þrír sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar í hvoru skipi. Bjarni Ólafsson AK er jafnframt með í verkefninu með það hlutverk að afmarka dreifingu loðnunnar til að flýta fyrir mælingum.
Aðdragandi mælinganna er sá að fréttir bárust á laugardeginum frá togveiðiskipum um loðnu í kantinum út af miðjum Austfjörðum. Í kjölfarið fór uppsjávarveiðskipið Víkingur, sem var á leið til löndunar á Vopnafirði af kolmunnamiðunum, yfir svæðið og staðfesti að þetta væri einhvert magn sem væri að sjá við kantinn frá Hvalbakshalla og allavega um 50 sjómílur þaðan í norður.
Stefnt er á að ná mælingu þarna á næstu dögum og fá m.a. mat á hvort þetta sé hrein viðbót við síðustu mælingar frá því í byrjun janúar eða þetta sé hluti af þeirri loðnu sem fannst norður af Langanesi á þeim tíma og gengið þetta langt í suður síðan þá.
Framhald þessara mælinga fyrir austan verður metið á næstu dögum með tilliti til veðurs og loðnumagns á svæðinu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst