Hafrannsóknakipið Bjarni Sæmundsson og grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq hafa verið að svipast um eftir loðnu í vikunni.
„Í rauninni ekki,“ segir Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun í samtali við Fiskifréttir, spurður hvort einhver tíðindi séu af loðnunni eftir að bæði Bjarni Sæmundsson og Polar Amaroq tóku að svipast um eftir henni nú í vikunni. Bjarni leitaði í Skjálfanda og Polar Amaroq í Faxaflóa.
„Það er ekkert þarna að sjá sem við höldum að við þurfum að bregðast beint við núna. Bjarni var ekki að sjá umtalsvert magn þarna fyrir norðan. Við höfum fengið gögnin frá Polar Amaroq um það sem hann sá, og það er í rauninni ekkert umfram það sem við máttum búast við frá því sem við höfðum þegar mælt.“
Hann sagðist telja að loðnan sem sást á Faxaflóa væri væntanlega á hefðbundinni göngu, komin að austan og búin að fara suður fyrir land.
Fregnir bárust að norðan
Hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson var út af Austfjörðum í árlegum vetrarleiðangri til athugunar á ástandi sjávar þegar fregnir bárust af loðnu fyrir norðan land, og voru þær þess eðlis að Bjarna var siglt töluvert langa leið til að mæla hversu mikið var þar á ferðinni. Að þeim mælingum loknum var haldið áfram þeim mælingum sem skipið er að sinna eða langtímavöktun á ástandi sjávar umhverfis landið og eru mælingar gerðar ársfjórðungslega.
Grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq hélt síðan á mánudag til að kanna hvort loðnu væri að finna í Jökuldýpinu, norðvestur af Garðskaga. Skipið var þá nýbúið að landa fullfermi af frystri loðnu í Hafnarfirði, að því er Síldarvinnslan greindi frá.
Geir Zoëga skipstjóri segir skipið hafa komið þar í „svakalega torfu. Hún er tæpar fimm sjómílur á lengd og þétt. Hún er frá kili og niður undir botn. Hér er sko alvöru vertíðarganga á ferðinni. Þetta hljóta að vera nokkur hundruð þúsund tonn.“
Skipið fór í að mæla þessa lóðningu og ætlaði síðan að svipast frekar um. Í gær var Polar Amoraq komið suður fyrir land og var að veiðum suður af Ölvusárósum.
Geir sagðist telja að þessi ganga, sem sást í Jökuldýpinu, yrði komin inn á Breiðafjörð um helgina og muni líklega hrygna þar í næstu viku.
Norðmenn búnir með sitt
Norðmenn hættu loðnuveiðum hér við land föstudagskvöldið 19. febrúar, og höfðu þá veitt þau 41,808 tonn sem þeir fengu úthlutað af 127.000 tonna heildarkvóta.
Þennan kvóta sóttu 57 norsk skip af þeim 68 skipum sem heimilt var að veiða loðnu hér við land. Töluvert af þessum afla lönduðu norsk skip hérlendis og þá austan lands: á Fáskrúðsfirði, á Eskifirði og í Neskaupstað.
Íslensku skipin voru síðan í gærmorgun búin að landa vel yfir 10 þúsund tonnum af loðnu. Fjögur skip voru komin með yfir þúsund tonn, en þau eru Beitir NK og Börkur NK, Jóna Eðvalds SF og Jón Kjartansson SU. Alls eru 17 íslensk uppsjávarskip með loðnukvóta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst