Stundum lendir lögreglan í verkefnum sem eru bara skemmtileg en geta verið krefjandi þar sem menn þurfa að sýna útsjónarsemi, þolinmæði, lipurð og hafa úthaldið í góðu lagi.
Fimmtudaginn 2. júní s.l. kom Natalie Chaylt frá Canada á stöðina og bar sig illa. Hún sagði hafa farið upp á Heimaklett í góða veðrinu til að taka myndir yfir eyjuna okkar fögru og til landsins. Á meðan hefði hún lagt frá sér bakpokann sinn sem í var m.a. vegabréfið hennar, greiðslukort, peningar, sími, myndavélalinsa og margt annað. Eitthvað hefði gerst sem varð þess valdandi að bakpokinn fer af stað og veltur niður og norður af brúninni og hverfur henni sjónum. �?egar hún kom á lögreglustöðina að tilkynna um þetta þá var Halldór Sveinsson lögreglumaður staddur hér á stöðinni og heyrði um þessi vandræði hennar, bauðst hann til þess að fara upp á Heimaklett og athuga hvort hann finni ekki pokann.
Halldór fer upp, fer þarna fram á brúnir og m.a. langleiðina niður í Dufþekju en finnur ekki pokann. Hefur samband við félagana á vaktinni sem þá eru staddir á Eiðinu og hafa verið að fylgjast með honum ásamt Natalie og segist bara ekki finna pokann. Spyr okkur hvort Natalie sé ekki tilbúin að koma aftur upp og benda nákvæmlega á staðinn þar sem hún var þegar pokinn rann fram af brúninni, auðvitað var daman til í það og fer upp til hans.
�?egar búið er að staðsetja nákvæmlega hvar pokinn fór fram af þá sér Halldór að það geti verið möguleiki á því að pokinn hafi fari alveg niður í sjó og því skuli þau fara niður og kíkja niður á Eiði og bak (norður fyrir) við Heimaklett.
Við félagarnir á vaktinni höfðum verið þolinmóðir á Eiðinu að fylgjast með þeim, sjáum hvar þau koma niður, skrönglast yfir hálar klappir og stórgrýti, Halldór hverfur okkur sjónum en Natalie stendur þar sem við sjáum hana vel og greinilegt er að hún er í sambandi við Halldór. Allt í einu hoppar hún upp, andlitið eitt bros og þarna réttir hún upp hendina með þumalinn á lofti. �?að var alveg greinilegt, POKINN VAR FUNDINN.
Síðan líður tíminn, ekkert bólar á Halldóri og daman stendur bara áfram þarna á stórgrýtinu og er greinilega í samræðum við Halldór. Síminn okkar hringir, Halldór í símanum, kemst ekki til baka, steinninn of hár, kemst ekki upp á hann, byrjað að flæða að, nennir ekki að vaða upp fyrir mitti, vantar band. Vaktfélagarnir fara á vetttvang með spotta, Halldór kemst upp þurrum fótum, Natalie glöð og ánægð að hafa endurheimt pokann sinn með öllu því sem skiptir máli að hafa meðferðist í ferðalagi um heiminn.
Svona í lokin er gaman að segja frá því að Natalie var svo ánægð með aðstoðina að daginn eftir kom hún með bakkelsi úr bakaríinu á stöðina og sætt þakkarbréf með.
Myndin sem fylgir með tók Sigurður Friðrik af félögum sínum og Natalie eftir að Halldór fann pokann hennar.