Hafrannsóknastofnun leggur til að loðnuafli á vertíðinni 2020/21 verði 127 300 tonn. Kemur sú ráðgjöf í stað þeirrar sem gefin var út 24. janúar 2021. Byggir ráðgjöfin á summu tveggja leiðangra sem fóru fram seinni part janúar og gáfu mat á stærð hrygningarstofns loðnu upp á samtals 650 þúsund tonn.
Fyrri leiðangurinn fór fram dagana 17. – 20. janúar með þátttöku þriggja skipa fyrir austan land. Við heildarstofnmat var notast við mælingar þessa leiðangurs sem voru sunnan við 65°N. Seinni leiðangurinn fór fram dagana 26. – 30. janúar með þátttöku alls átta skipa og dekkuðu þau Vestfjarða-, Norður- og norðanverð Austurmið (mynd).
Niðurstöður þess leiðangurs sem teknar voru með í heildarmatinu samanstóðu af mælingum fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og suður að 65°N fyrir austan land. Fyrri leiðangurinn náði aðeins yfir syðsta hluta útbreiðslusvæðis loðnu fyrir austan land því óveður komu í veg fyrir frekari mælingar norðar. Viku seinna gafst loks færi til að fara í framhald af þeim.
Dreifing loðnu ásamt forsendum um göngustefnu og tímasetningar var lögð til grundvallar á ákvörðun um samlagningu mælinganna með þessum hætti. Heildaryfirferð þessara tveggja leiðangra er talin ná yfir allt útbreiðslusvæði hrygningarloðnu. Það gilti ekki um mælingar í desember og fyrri hluta janúar og því voru niðurstöður þeirra ekki notaðar í þessari lokaráðgjöf.
Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150 000 tonnum að teknu tilliti til afráns. Samkvæmt því leiðir þessi heildarmæling til veiðiráðgjafar upp á 127 300 tonn veturinn 2020/21 og kemur í stað fyrri ráðgjafar frá því í janúar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst